Staða efnahagsmála

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:14:44 (2082)

2001-11-28 13:14:44# 127. lþ. 37.91 fundur 165#B staða efnahagsmála# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:14]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er fullt tilefni til þess að leita nú allra ráða til að efna til víðtæks samstarfs og samráðs í þjóðfélaginu um aðgerðir í efnahagsmálum í anda þess sem gert var árið 1990 og kennt var við þjóðarsátt. Óhætt er að segja að öll spjót standi nú á ríkisstjórninni. Hún er sökuð um að ganga erinda fjármagnsafla á kostnað launafólks. Þetta kemur m.a. fram í harðri gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á skattapakka ríkisstjórnarinnar, á aðgerðir hennar í velferðarmálum, húsnæðismálum og öðru því sem tengist lífskjörum almennings á liðnum árum.

Hafa menn hugleitt að þrátt fyrir sverar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðstoð við barnafólk eru barnabætur núna að verðgildi lægri, þær eru minni en þær voru fyrir 10 árum? Ríkisstjórnin hefur þverskallast gegn öllum kröfum launafólks í skattamálum og í velferðarmálum. Nú blasir við að verðlag er farið úr böndum. Við slíkar aðstæður ber ríkisstjórninni siðferðileg skylda til að leita allra leiða tl að stofna til þeirrar sáttar í þjóðfélaginu sem hér er lagt til.