Staða efnahagsmála

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:16:04 (2083)

2001-11-28 13:16:04# 127. lþ. 37.91 fundur 165#B staða efnahagsmála# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:16]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hver voru merkilegustu orðin sem féllu í þessum umræðum? Það voru orð hæstv. fjmrh. Orð hans lýstu á vissan hátt viðhorfi ríkisstjórnarinnar. Hæstv. fjmrh. sagði að við værum að ræða hér af litlu tilefni.

Herra forseti. Hvert er tilefnið? Vextir sem eru þrefalt hærri en í samkeppnislöndunum. Verðbólga sem er nánast fjórfalt hærri en í samkeppnislöndunum og gengisfelling sem stappar nærri hruni. Það er eiginlega sama hvert er litið. Alls staðar blasa við vísbendingar um að hæstv. fjmrh. og kollegar hans í ríkisstjórninni hafi misst öll tök á þróun og stjórn efnahagsmála. Ég tek undir með hæstv. utanrrh. sem segir hér að ekki sé hægt að komast hjá því að hér verði uppnám í efnahagslífinu nema það takist að forða því að launalið kjarasamninga verði sagt upp. Það er alveg ljóst. Hann sagði sjálfur að forsendan fyrir því væri að verðbólgan færi niður og hann sagði líka að allar spár bentu til þess.

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. ætti að fara og skoða allar spár ríkisstjórnarinnar síðustu missirin um verðbólgu. Hver og ein einasta hefur reynst röng. Ég gef því lítið fyrir þessar spár ríkisstjórnarinnar. Ég horfi bara á veruleikann og veruleikinn er eins og hæstv. utanrrh. sér hann, þ.e. það verður að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna til þess að komast hjá uppnámi í efnahagslífinu.

Það er hins vegar staðleysa hjá hæstv. utanrrh. að haft hafi verið samráð við verkalýðshreyfinguna. Hún hefur ítrekað sent frá sér varnaðarorð, fréttatilkynningar um að það hafi ekki verið gert, t.d. þegar ráðist var í umdeildar lækkanir á sköttum fyrirtækja. Þá kom miðstjórn ASÍ sérstaklega saman til að senda frá sér ávítanir og ábendingar til ríkisstjórnarinnar um að haga sér ekki með þessum hætti. Ég vísa þessu því algerlega til föðurhúsanna en mér þykir miður að hæstv. utanrrh. vilji ekki lýsa því yfir að taka eigi upp formlegt þríhliða samráð eins og var grundvöllur þjóðarsáttarinnar 1990.