Staða efnahagsmála

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:18:27 (2084)

2001-11-28 13:18:27# 127. lþ. 37.91 fundur 165#B staða efnahagsmála# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var heldur léleg málsvörn hjá hæstv. fjmrh. að vísa til nánast einu nefndarinnar sem ríkisstjórnin á síðari árum hefur skipað fulltrúum allra flokka eða flestallra þingflokka, nefndarinnar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Það vita nú allir hvernig það mál er vaxið og hverjum það þjónaði helst, að tefja málin og reyna að kalla til fleiri í því tilviki, sem var auðvitað ríkisstjórnin sjálf og vandræði hennar í málinu.

Það sem hér þarf að gera, herra forseti, er ekki aðeins að krefjast þess að hæstv. ríkisstjórn reyni eftir atvikum að skapa samstöðu um aðgerðir í efnahagsmálum. Það þarf jafnframt að þrýsta á að eitthvað verði reynt. Það virðist vera svo, herra forseti, að ekki aðeins ætli ríkisstjórnin sér nánast ekkert að reyna, t.d. að ná stjórnmálasambandi við aðila vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin virðist yfir höfuð ekki ætla að gera neitt eða reyna neitt.

Lína hæstv. forsrh. er: Þetta er allt í lagi og lagast af sjálfu sér. Hann vill halla sér aftur á bak og bíða eftir því, á grundvelli einhvers spádóms, að krónan muni styrkjast svo hratt á fyrstu mánuðum næsta árs að það verði jafnvel til vandræða. Þetta er stóri spádómurinn sem fyrir liggur frá hæstv. forsrh. Það er auðvitað ekki gæfulegt, herra forseti. M.a. í gegnum það að fleiri aðilar komist að þessu borði binda menn vonir við að eitthvað verði reynt. Hæstv. forsrh. er búinn að segja þetta um efnahagsmálin í eitt og hálft til tvö ár: Þetta er allt í fína lagi, lagast allt á næstu mánuðum. Verðbólgan átti að hans dómi að verða á hraðri niðurleið á næstu mánuðum í eitt og hálft ár, á sama tíma og hún hefur lengst af farið hækkandi.

Þannig eru aðstæðurnar enn, því miður. Það er auðvitað skaði að hafa misst hæstv. forsrh. til útlanda. Og þó, það er ekki víst að það breyti nokkrum sköpuðum hlut. Hann hefur ekkert verið að reyna hvort sem er.