Fjárlög 2002

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:28:09 (2090)

2001-11-28 13:28:09# 127. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eitt af sérstökum gæluverkefnum þessarar ríkisstjórnar, fyrir utan NATO-fundi og annað því um líkt, hefur verið einkavæðingartrúboðið. Ævinlega eru til nógir peningar þegar þarf að setja meira í þann herrekstur. Þannig voru til að mynda afgreiddar hér litlar 300 millj. kr. inn í fjáraukalög með brtt. frá meiri hlutanum fyrir nokkrum dögum. Það á að halda áfram á sömu braut og setja áframhaldandi fjárveitingar í þetta. Það kæmi manni mjög á óvart ef ríkisstjórnin hefði nokkrar hugmyndir um að skera þetta niður.

Við teljum þennan fjáraustur óþarfan og þessum peningum betur komið annars staðar. Við teljum að endurskoða eigi frá grunni öll vinnubrögð í sambandi við verkaskiptingu ríkis og einkaaðila og stöðva frekari ákvarðanatöku á því sviði á meðan. Þar af leiðandi er þarna handhægur liður til að spara um 16,5 millj. kr., herra forseti, eða tæplega það, og munar um minna. Við leggjum því til að þessi liður verði strikaður út, liður 1.15 Útboðs- og einkavæðingarverkefni undir Ýmis verkefni 01-190.