Viðbragðstími lögreglu

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:55:27 (2100)

2001-11-28 13:55:27# 127. lþ. 38.91 fundur 169#B viðbragðstími lögreglu# (aths. um störf þingsins), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Í fyrirspurnatíma í þinginu í fyrri viku spurði hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nokkurra spurninga um útkallstíma lögreglunnar í Reykjavík, þar á meðal um lengsta útkallstíma þar sem óskað hefði verið eftir neyðaraðstoð. Af því tilefni leitaði ég eftir upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík og fékk skýr og greinargóð svör sem ég flutti þinginu. Svörin komu hv. þm. á óvart og reifaði hann í framhaldinu dæmi sem hann taldi í ósamræmi við svör mín. Harmaði ég að dæmi þetta hefði ekki verið nefnt fyrr þannig að unnt væri að kanna bakgrunn málsins og flytja þinginu skýringar á umræddu máli. Ég boðaði jafnframt að ég mundi kanna málið sérstaklega.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson gekk þó heldur lengra og sakaði mig um að flytja þinginu rangar upplýsingar. Ég hef kannað þetta tiltekna mál sem var tilefni þess að hinir hv. þm. ásökuðu mig um að flytja þinginu rangar upplýsingar. Málavextir þess eru í stuttu máli þeir að boð komu til fjarskiptamiðstöðvar lögreglu um að maður svæfi ölvunarsvefni í stigagangi húss hér í borginni. Af hálfu fjarskiptamiðstöðvar var litið svo á að ekki væri um forgangsmál að ræða og var ekki unnt að sinna þessari beiðni fyrr en 50 mínútum síðar en lögregla var á þessum tíma m.a. upptekin við að sinna útkalli vegna heimilisófriðar. Boð komu að nýju til fjarskiptamiðstöðvarinnar, 50 mínútum eftir fyrsta boðið, um að maðurinn svæfi ekki ölvunarsvefni heldur væri hann með höfuðáverka. Lögregla var þá þegar komin á staðinn.

Af þessu má ljóst vera að fyrstu boð sem bárust lögreglu gáfu ekki til kynna að hér væri um forgangsmál eða beiðni um neyðaraðstoð að ræða, hvorki gagnvart lögreglu né sjúkraliði. Eins og ég upplýsti þingið um getur viðbragðstími lögreglu verið langur á álagstímum og þegar ekki er um forgangsmál að ræða mætir það í flestum tilvikum skilningi viðkomandi aðila. Hv. þm., formaður Samfylkingarinnar, sagði í umræddum fyrirspurnatíma að það væri embættisskylda mín að greina þinginu rétt frá og ég yrði að skýra þinginu frá orsökum þess að ég flytti þinginu rangar upplýsingar. Sagði hv. þm. að þingið mundi þá meta hvort óskað yrði eftir afsökunarbeiðni minni.

Vegna orða hv. þm. taldi ég þörf á að greina frá því hér, herra forseti, að það er ljóst að upplýsingar þær sem ég flutti þinginu í fyrri viku, um viðbragðstíma lögreglunnar þegar um forgangsmál eða neyðarútkall er að ræða, eru réttar, enda koma þær beint frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar.

Ég tel rétt að koma þessu á framfæri hér og nú.