Viðbragðstími lögreglu

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:00:05 (2102)

2001-11-28 14:00:05# 127. lþ. 38.91 fundur 169#B viðbragðstími lögreglu# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt við að þingmenn óski eftir skýringum á misvísandi upplýsingum eins og þeim sem hér komu fram í fyrirspurnatíma í síðustu viku. Ég vek eftirtekt á því að það er réttur þingmanna að krefjast þess að ráðherrar greini satt og rétt frá. Misbrestur á því hefur m.a. orðið til þess að hér hafa orðið einhver mestu umsvif og umskipti í atvinnulífi á seinni árum. Ég vísa til þess þegar ráðherrar komu hér fyrir nokkrum árum og fluttu rangar upplýsingar um innviði banka. Við munum öll til hvers það leiddi.

Hæstv. ráðherra hefur hins vegar orðið við því sem menn fóru fram á þá, að skýra mál sitt. Ég segi það fyrir mitt leyti að ég tek skýringar hæstv. ráðherra fullkomlega gildar. Það er alveg ljóst, eins og hún leggur þetta mál fyrir, að þarna hefur verið um einhvers konar misskilning að ræða á milli þeirra sem hringdu í neyðaraðstoðina og lögreglunnar. Þetta hefur verið skýrt af hálfu hæstv. ráðherra. Ég tel það vera til eftirbreytni að bregðast við með þessum hætti og þakka henni fyrir.