Viðbragðstími lögreglu

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:03:28 (2105)

2001-11-28 14:03:28# 127. lþ. 38.91 fundur 169#B viðbragðstími lögreglu# (aths. um störf þingsins), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:03]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Mér finnst mjög sérstakt að hlusta á viðbrögðin frá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni út af þessari fyrirspurn. Hann kemur hér með ákveðnar spurningar sem er sjálfsagt að svara og ráðherrum ber að svara og veita upplýsingar til þingsins. En þegar spurt er um málefni lögreglunnar og beðið um upplýsingar um störf hennar þarf auðvitað að leita eftir upplýsingum hjá henni sjálfri. Ekki getur hv. þm. ætlast til þess að ég gangi hér með í vasanum t.d. dagbók lögreglunnar í Reykjavík eða nákvæmar upplýsingar af því tagi.

Tilfellið er að hv. þm. spurði um neyðaraðstoð. Hann spurði nánar tiltekið í fimm liðum sem var svarað mjög nákvæmlega. Í dæminu sem hann tiltók síðan var ekki óskað eftir neyðaraðstoð og ég benti hv. fyrirspyrjanda á að það hefði verið æskilegra ef hann hefði komið með þetta dæmi til mín eða lögreglunnar áður en hann kom með það fyrir þingið. Það hefði auðvitað verið eðlilegast, hv. þm.

Það er skýrt að ráðherrum ber að svara fyrirspurnum þingmanna en það er jafnskýrt að hv. þm. verða líka að haga orðum sínum svo að hægt sé að verða við þeim fyrirspurnum og svara skýrt og skilmerkilega. Ég hef upplýst þetta mál hér og nú. Ég taldi rétt að gera það við þetta tækifæri þar sem nú er að byrja annar fyrirspurnatími í þinginu.