Útsendingar Ríkisútvarpsins um gervitungl

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:10:52 (2109)

2001-11-28 14:10:52# 127. lþ. 38.1 fundur 238. mál: #A útsendingar Ríkisútvarpsins um gervitungl# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrir sex árum samþykkti Alþingi þáltill. sem ég flutti um athugun á þeim kostum sem í boði væru til að bæta útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiðanna. Í framhaldi af því fékk hæstv. menntmrh. greinargerð frá útvarpsstjóra þar sem fram kom að stækkun dreifikerfis svo það næði út á fiskimiðin mundi kosta 850 millj. kr. á ári.

Í svari við fyrirspurn minni fjórum árum síðar í mars 1999 kom hins vegar fram að samsendingar sjónvarps- og útvarpsdagskrár um gervitungl mundu aðeins kosta 60--80 millj. kr. á ári og að kostnaður við slíkar sendingar mundi frekar lækka en hækka. Ég ítreka hér það sem ég sagði við þá umræðu, að Ríkisútvarpið á að slá tvær flugur í einu höggi og tryggja með sendingu um gervitungl að sjómenn og aðrir landsmenn sem búa við slæm móttökuskilyrði geti notið sendingar sjónvarps til jafns við aðra íbúa landsins.

Ég hef að undanförnu undirbúið flutning nýrrar þáltill. um þetta mál sem vonandi lítur dagsins ljós fljótlega.