Rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:35:10 (2122)

2001-11-28 14:35:10# 127. lþ. 38.5 fundur 298. mál: #A rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að bera fram þessa fyrirspurn sem var í sjálfu sér ósköp einföld. Hún snerist um hvort hæstv. ráðherra ætlaði að beita sér fyrr því að þessari niðurstöðu sem Samkeppnisstofnun komst að og finna má í skýrslu hennar yrði fylgt eftir með tiltekinni rannsókn. Hvort hún mundi beita sér fyrir því að til þessarar rannsóknar yrði lagt fé. Hæstv. ráðherra svaraði engu þar um. Hún sagði aðeins að sjálfstæðið væri nauðsynlegt og svaraði engu þar um.

Til þess hins vegar að þessar stofnanir geti verið sjálfstæðar, til þess að þær geti komist að einhverri niðurstöðu, til þess að þær geti aukið skilning manna á þeirri fákeppni sem þarna virðist ríkja, vantar fé. Ég verð að segja alveg eins og er, af því að við höfum verið að ræða hér fjárlög, að mér sýnist víða vera hægt að taka fé, taka nokkrar milljónir til þess að tryggja hag neytenda. Því miður hefur það verið svo að þessi tiltekni hæstv. ráðherra hefur frekar lítinn áhuga haft á þessum málum í ráðherratíð sinni.