Rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:39:42 (2125)

2001-11-28 14:39:42# 127. lþ. 38.5 fundur 298. mál: #A rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn en mér þykir það mjög leitt ef hv. þingmenn hafa alls ekki numið það sem ég sagði í ræðu minni áðan. Ég sagði frá því að Samkeppnisstofnun skilaði ítarlegri skýrslu í apríl 2001. Þar komu fram miklar upplýsingar. Það sem kom m.a. fram af hálfu samkeppnisyfirvalda var að farið yrði í frekari vinnu vegna einstakra mála sem þeir höfðu komist á snoðir um í rannsókn sinni. Þeir hafa ekki tjáð mér að þeir geti ekki farið í þá vinnu. Þeir hljóta að vera í henni. Alla vega hafa mér ekki borist upplýsingar um að þeir hafi ekki hafið þá vinnu vegna fjárskorts. Ég bíð hins vegar eftir niðurstöðum og ég held að það hljóti að fara að styttast í þær því liðinn er alllangur tími síðan þetta var.

Þessi mikla skýrsla sem unnin var, eins og ég sagði líka frá vegna samþykktar ríkisstjórnarinnar og í hana fékkst sérstakt fjármagn af ríkisstjórnarlið, sýndi það að þegar samruni átti sér stað á þessum markaði hækkaði verðið. Það var augljóst. Þetta er svo sannarlega stórt mál sem hér er hreyft. Ég hef ekki nokkrar athugasemdir og miklu frekar þakkir til hv. þm. fyrir að bera það hér fram.

Ég vil bara ítreka að Samkeppnisstofnun er að vinna að þessum málum í framhaldi af rannsókninni sem átti sér stað snemma á síðasta ári.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að Samkeppnisstofnun gæti þegið hærri fjárveitingar á fjárlögum. En við skulum hafa það í huga að með nýjum samkeppnislögum sem samþykkt voru eftir að ég tók við sem viðskrh. fær þessa ágæta stofnun verulega aukið fjármagn sem skiptir tugum milljóna, þ.e. vegna nýju laganna. Það eru hlutir sem komu fram og menn voru upplýstir um áður en lögin voru samþykkt og þess vegna kemur þetta af sjálfu sér inn í fjárlögin.

Ég vil að lokum segja að ég tel þessa stofnun vinna mjög þarft verk og ber mikla virðingu fyrir störfum hennar.