Gagnkvæmt samstarf við önnur ríki um fjármálastarfsemi

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:54:55 (2131)

2001-11-28 14:54:55# 127. lþ. 38.6 fundur 299. mál: #A gagnkvæmt samstarf við önnur ríki um fjármálastarfsemi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr um reglur bandarísku skattstofunnar um viðurkennda milligönguaðila og stöðu Íslands varðandi þær reglur sem þar gilda.

Því er til að svara að hér er um að ræða viðamikla endurskoðun bandarískra skattyfirvalda á reglum um skráningu upplýsinga um verðbréfaviðskipti í Bandaríkjunum sem stunduð hafa verið af fjármálafyrirtækjum sem ekki hafa staðfestu þar í landi. Með reglunum vilja bandarísk skattyfirvöld m.a. nálgast upplýsingar um verðbréfaviðskipti bandarískra þegna hjá erlendum fjármálafyrirtækjum. Nýju reglurnar eru mun yfirgripsmeiri en hinar fyrri og tóku gildi um síðustu áramót.

Fjármálafyrirtæki utan Bandaríkjanna geta sótt um að fá stöðu svokallaðs viðurkennds milligönguaðila í Bandaríkjunum. Fái fjármálafyrirtæki þá stöðu krefjast bandarísk skattyfirvöld ekki jafnítarlegra upplýsinga um hver einstök viðskipti og ella, jafnframt er tryggt að reglur um afdráttarskatt í tvísköttunarsamningi viðkomandi ríkis við Bandaríkin gildi um viðskiptin. Þeir samningar mæla jafnan fyrir um verulega lækkun á slíkum afdráttarskatti. Til að fá stöðu viðurkennds milligönguaðila þurfa skattyfirvöld að hafa staðfest viðskiptareglur í heimaríki vikomandi fjármálafyrirtækis. Þær reglur lúta m.a. að því hvernig tekið er á peningaþvætti í viðkomandi ríki.

Íslensk fjármálafyrirtæki fóru fyrr á þessu ári að skoða möguleikana á skráningu sem milligönguaðilar. Hér á landi hafa samtök banka og verðbréfafyrirtækja haft veg og vanda af vinnu við mál þetta. Samtökin hafa m.a. ráðið bandarískan sérfræðing á þessu sviði sér til aðstoðar við framgang málsins.

Samtökin leituðu einnig eftir liðsinni viðskrn. og Fjármálaeftirlitsins við að svara tilteknum atriðum í spurningalista um staðfestar viðskiptareglur. Stjórnvöld hafa ekki komið að málinu með öðrum hætti. Mikilvægt er að íslensk fjármálafyrirtæki sem hafa átt umtalsverð verðbréfaviðskipti í Bandaríkjunum fái stöðu viðurkennds milligönguaðila fyrir áramótin, því ella verður haldið eftir skatti í Bandaríkjunum af viðskiptum ársins. Þetta er því mikilvægt hagsmunamál fyrir íslenska fjármálamarkaðinn.

Eins og sakir standa bendir allt til þess að farsællega takist að leiða málið til lykta fyrir áramót.