Gagnkvæmt samstarf við önnur ríki um fjármálastarfsemi

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:57:47 (2132)

2001-11-28 14:57:47# 127. lþ. 38.6 fundur 299. mál: #A gagnkvæmt samstarf við önnur ríki um fjármálastarfsemi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin. Þau segja mér að nú þegar er unnið að því að fullnægja þessum ákvæðum og koma því þannig við að íslenskir aðilar sem stunda fjármálaviðskipti í Bandaríkjunum af einhverjum ástæðum, hvort sem það eru fyrirtæki, einkaaðilar eða lífeyrissjóðir, sem sennilega eru hvað stærstir í þessu efni, muni ekki verða fyrir skaða vegna þess að Ísland hafi ekki fullnægt reglum Bandaríkjamanna.

Ég komst á snoðir um þetta mál í byrjun þessa árs en reglur Bandaríkjamanna voru þá ekki alveg glænýjar. Í síðasta mánuði, í lok október sl., stóð enn svo á að þó að skráðar hefðu verið reglur þessa efnis frá nokkrum tugum ríkja og sjálfstjórnarsvæða var Ísland enn ekki á þeim lista og enginn aðili á Íslandi viðurkenndur eða staðfestur sem milligönguaðili. Ég tel það skipta mjög miklu máli að úr þessu rætist, bæði af hálfu íslenska ríkisins og íslenskra fyrirtækja sem stunda slík viðskipti eða eru milligönguaðilar til að umbjóðendur þeirra verði ekki fyrir miklum skaða. Um er að ræða um það bil þriðjungsgjaldtöku í hverju tilviki af fjármagnstekjum ef slíkar reglur eru ekki viðurkenndar. Þess vegna verð ég að viðurkenna að mér þykir brýnt að bæta hér úr.