Upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 15:16:00 (2137)

2001-11-28 15:16:00# 127. lþ. 38.7 fundur 277. mál: #A upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir að hreyfa þessu máli sem er í aðra röndina afar viðkvæmt en í hina mjög mikilvægt. Hér er um hagsmuni fjölda fólks að ræða og það er alveg nauðsynlegt að með upplýsingar af þessum toga, þó að opinberar séu, sé farið með mikilli gát.

Af svörum hæstv. ráðherra var að heyra að verklag og vinnubrögð við söfnun þessara upplýsinga og miðlun þeirra til annarra væri með dálítið mismunandi hætti og ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki ástæðu til að fara yfir það í ráðuneytinu og setja um þetta a.m.k. samræmdar reglur. Ég tek undir það að skipuleg söfnun þessara upplýsinga og miðlun þeirra til einkaaðila er viðkvæm og getur orkað tvímælis undir ákveðnum kringumstæðum þannig að ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún sé ánægð með það fyrirkomulag sem á þessu er haft.