Upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 15:18:23 (2139)

2001-11-28 15:18:23# 127. lþ. 38.7 fundur 277. mál: #A upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er hreyft afar viðkvæmu en þörfu máli, og kemur í ljós í svari hæstv. ráðherra að ýmislegt vekur forvitni. Það er t.d. eðlilegt ef hæstv. ráðherra hefur upplýsingar um það hvernig eftirliti er háttað með viðkomandi upplýsingum og kem ég þá inn á það sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir kom inn á, þ.e. hvernig skránni er viðhaldið, hvort ætíð séu þar nýjustu upplýsingar og hversu gamlar þær eru þegar þær hverfa út af listanum.

Síðan kemur fram hjá hæstv. ráðherra að það er greinilega afar misjafnt hvernig greiðslum er háttað fyrir þessar upplýsingar og þess vegna er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki eðlilegt að samræma á einhvern hátt þær reglur sem um þetta gilda. Að lokum, herra forseti, er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að hugsanlega séu einhverjir aðilar sem safna upplýsingum af þessu tagi sem í raun og veru þyrftu leyfi frá Persónuvernd sem þeir hafa ekki í dag.