Upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 15:19:40 (2140)

2001-11-28 15:19:40# 127. lþ. 38.7 fundur 277. mál: #A upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og kannski að mörgu leyti fyrir að draga ekkert undan því að þetta er akkúrat eins og hæstv. ráðherra lýsti þessu. Þessar upplýsingar eru sendar á faxi fyrir 100 kr.

Í framhaldi af því tekur þetta fyrirtæki og selur áskrifendum eða bönkum og öðrum slíkum þessar upplýsingar og selur þá á allt öðru verði. Þarna er ríkið orðið einhvers konar uppspretta fyrir þetta fyrirtæki, uppspretta upplýsinga fyrir þetta fyrirtæki sem það selur síðan áfram.

Mér finnst það mjög verðugt umhugsunarefni ef 20 nöfn á faxblaði kosta 100 kr. sem síðan eru seld áfram á margföldu verði, hvort þetta fyrirkomulag sé yfir höfuð eðlilegt. Nú skil ég mjög vel og tek undir að það er nauðsynlegt að viðskiptalífið hafi aðgang að þessum upplýsingum. En mér virðist af þessum svörum að ferðalag þessara upplýsinga frá ríkisvaldinu yfir til fyrirtækisins sé ekki í nógu góðu standi og ríkisvaldið verði líka að meta að virði þessara seldu upplýsinga sé eðlilegt verð.

Það er dálítið sérstætt þegar þetta fer bara á faxvélinni frá sýslumannsembættunum og ég tek undir með hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur sem orðaði það þannig að svona er ástatt hjá þjóð sem vill láta dulkóða sig margsinnis ef gefa á blóð eða taka sýni.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég líka nefna það af því að hæstv. ráðherra dró í raun og veru ekkert undan í svari sínu og svaraði þessu mjög eðlilega að af svörum hennar má til að mynda ráða að Reiknistofa bankanna sem vélar um upplýsingar af þessum toga hafi ekki leyfi Persónuverndar til að vinna með og dreifa þessum upplýsingum. Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra taki til hendinni í þessum efnum.