Skattar af greiðslum úr kjaradeilusjóðum stéttarfélaga

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 15:25:16 (2142)

2001-11-28 15:25:16# 127. lþ. 38.8 fundur 297. mál: #A skattar af greiðslum úr kjaradeilusjóðum stéttarfélaga# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur það mjög aukist að félagar í stéttarfélögum borgi ákveðna prósentu af launum sínum í sérstakan kjaradeilusjóð sem stendur svo undir greiðslum til þeirra í kjaradeilum. Þetta munu vera nokkuð misjafnar upphæðir og greiðslurnar eftir því misháar. Það fer eftir félögum, en í því stéttarfélagi sem ég þekki best til í, Kennarasambandi Íslands, hefur þetta lengst af verið 1% af launum og að sjálfsögðu hefur þessi upphæð verið skattlögð eins og aðrar tekjur. Við stóðum því í þeirri meiningu, kennarar, þegar við fyrst fórum að greiða okkur verkfallsstyrki úr sjóðnum að þetta væri eins og að taka peninga út af sparisjóðsbók sem maður ætti sjálfur. Þessar greiðslur yrðu ekki skattlagðar. Þetta væru peningar sem þegar hefði verið greiddur skattur af.

Okkur var þó gert ljóst að þessar greiðslur væru tilkynningarskyldar á skattskýrslu. Það fór svo að þessar greiðslur voru skattlagðar eins og aðrar launatekjur en voru þó ekki skattlagðar fyrr en eftir á sem kom sér ákaflega vel fyrir þá sem nutu þeirra. Þetta eru fremur lágar greiðslur og kom sér vel fyrir fólk að það gat verið búið að ná sér upp fjárhagslega eftir verkfallið þegar kom að skuldadögum vegna þessara greiðslna sem auðvitað ættu að vera með öllu undanþegnar skatti.

Minna má á að breyting var gerð á skattlagningu framlaga í lífeyrissjóði til að koma í veg fyrir tvísköttun lífeyrisgreiðslna og virðist eðlilegt að líta á framlög úr kjaradeilusjóðum á sama hátt.

Nú brá svo við að alveg án samráðs við verkalýðsfélögin sem hafa umrædda sjóði í vörslu sinni var gefin út reglugerð í ágúst sl. þar sem ákveðið er að taka greiðslur úr kjaradeilusjóðum út af lista yfir greiðslur sem eru undanþegnar staðgreiðslu. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh.:

Hvað olli því að greiðslur úr kjaradeilusjóðum stéttarfélaga voru í sumar teknar út af lista yfir greiðslur sem eru undanþegnar staðgreiðslu skatta með reglugerð nr. 500/2001, um breytingu á reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með síðari breytingum?