Skattar af greiðslum úr kjaradeilusjóðum stéttarfélaga

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 15:27:44 (2143)

2001-11-28 15:27:44# 127. lþ. 38.8 fundur 297. mál: #A skattar af greiðslum úr kjaradeilusjóðum stéttarfélaga# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér er í raun og veru spurt um það hvort tilteknar greiðslur sem berast einstaklingum úr kjaradeilusjóðum stéttarfélaga skuli skattlagðar í staðgreiðslu eða eftir á. Slíkar greiðslur voru skattlagðar eftir á á grundvelli heimilda í reglugerð, en það sem hv. þm. er að spyrja um er hvers vegna þessu hefði verið breytt með nýrri reglugerð núna á liðnu sumri.

Meginreglan í sambandi við tekjuskattinn er að sjálfsögðu, eins og kunnugt er, að hann beri að staðgreiða, sbr. lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1987, staðgreiðslulögunum, er ráðherra heimilað að undanþiggja staðgreiðslu ákveðin laun og tegundir launa undir ákveðinni fjárhæð. Með setningu reglugerðar nr. 500/2001 sem hv. þm. vitnaði til, um breytingu á tiltekinni reglugerð um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með síðari breytingum, var gerð heildstæð endurskoðun á reglugerðinni nr. 591/1987 sem heimilaði þessar undanþágur. Það var gert vegna fjölmargra ábendinga um óþægindin sem fylgdu því að lenda í eftirágreiðslu með þennan skatt. En þarna er um að ræða ýmsar tegundir greiðslna sem með reglugerðarbreytingunni í sumar voru gerðar staðgreiðsluskyldar, þar á meðal umræddar greiðslur úr kjaradeilusjóðum stéttarfélaganna.

Sama á reyndar við um greiðslur af sjúkradagpeningum frá Tryggingastofnun og vátryggingafélögunum og fleiru sem var ákveðið að gera staðgreiðsluskylt við sama tækifæri. Ástæðan var sú að það var talið eðlilegt að reyna að tryggja að álagningin sem kemur eftir á væri sem réttust og fólk lenti þá ekki í því að þurfa að borga eftir á af peningum sem í flestum tilfellum væri búið að eyða. Um þetta höfðu borist margvíslegar kvartanir frá fólki vegna álagningarinnar sem á sér stað 1. ágúst ár hvert og það var vegna þessara ábendinga og kvartana sem ákveðið var að breyta reglunum um undanþágurnar sem hér eru til umræðu. Undanþágum var í allt fækkað úr 27 í 15 við þessa reglugerðarbreytingu sem þýðir að fólk staðgreiðir þennan skatt í stað þess að borga hann hugsanlega allt að einu og hálfu ári seinna í eftirágreiðslunum.

Þetta kom oft harkalega niður á þeim sem fengu t.d. verkfallsgreiðslur. Þar gat verið um að ræða tekjulágt fólk og ekki óalgengt þegar um er að ræða greiðslur úr kjaradeilusjóðum og þess vegna var það óþægilegt fyrir mjög marga að þurfa að greiða þetta árið eftir, frá 1. ágúst til 1. desember.

Því er jafnframt við að bæta að vegna þess að greiðslur úr kjaradeilusjóðum eru oft og tíðum ekki mjög háar er það raunin í mörgum tilvikum að persónuafsláttur viðkomandi hefur gengið að öllu leyti til greiðslu á afdreginni staðgreiðslu. Greiðslurnar úr kjaradeilusjóðunum hafa með öðrum orðum verið undir skattfrelsismörkunum þannig að þá skiptir þetta ekki máli að öðru leyti en því að fólk er þá laust allra mála gagnvart skattinum að því er þetta varðar.

Ég tel þess vegna að þetta hafi verið hagkvæmnisráðstöfun fyrir þá launþega eða þiggjendur þessara greiðslna sem hér eiga hlut að máli auk þess sem það er að sjálfsögðu til þæginda fyrir hið opinbera að sem flest sé gert upp í staðgreiðslunni sem hægt er að gera upp af opinberum gjöldum. Þetta er ástæðan og þetta er svarið, hv. þm.