Skattar af greiðslum úr kjaradeilusjóðum stéttarfélaga

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 15:33:33 (2145)

2001-11-28 15:33:33# 127. lþ. 38.8 fundur 297. mál: #A skattar af greiðslum úr kjaradeilusjóðum stéttarfélaga# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Hann svaraði vissulega spurningunni sem ég bar fram en ég hefði gjarnan viljað að svarið hefði verið á annan veg, að þetta hefði verið tekið út fyrir misskilning. Það reyndist hins vegar ekki vera.

Nú er búið að leggja þetta framlag, sem við höfum verið að greiða af okkar eigin sparifjárinnistæðu, sem við höfum greitt skatta af, til jafns við sjúkradagpeninga og aðrar slíkar bætur sem fólk fær úr ríkissjóði og hefur ekki endilega lagt inn í sjálft af skattskyldum tekjum. Mér finnst þetta ekki fullkomlega sambærilegt, herra forseti.

Hæstv. ráðherra kom fram með þá röksemd að borist hefðu fjölmargar ábendingar. Ég hef verið í forsvari fyrir stéttarfélag sem hefur slíkan sjóð og hef talað við fjölmarga sem finnst alveg með ólíkindum að þaðan hafi komið ábendingar um þetta. Menn telja að það hafi þó hjálpað fólki til að sætta sig við það ranglæti sem þessi tvísköttun virkilega er að þessir peningar voru ekki skattlagðir fyrr en árið eftir, þegar fólk var í flestum tilfellum búið að ná sér eftir verkfallsaðgerðirnar sem vissulega hafa harkaleg áhrif á persónulega hagi fólks.

En ég vil gleðja hæstv. ráðherra með því að hann mun fá tækifæri til þess að rétta hlut ríkissjóðs í þessu máli því að ég hef lagt fram frv. um að slíkar greiðslur verði ekki skattskyldar í framtíðinni.