Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 11:00:39 (2148)

2001-11-29 11:00:39# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[11:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ræðuna. Ég get ekki annað en tekið undir þau orð sem hæstv. ráðherra hafði um skelfilegar afleiðingar voðaverkanna í Bandaríkjunum 11. september, ég tek undir þau orð sem hæstv. ráðherra hafði um afleiðingar þeirra fyrir heimsbyggðina og mannlegt samfélag alls staðar. Ég held hins vegar að við eigum að fara okkur hægt að túlka eða oftúlka áhrif þeirra atburða á efnahagslíf okkar hér heima. Það er að sönnu rétt að sú lægð sem við erum að sigla inn í mun örugglega dýpka af völdum þeirra en ég tek mönnum vara fyrir því að nota þá atburði og afleiðingar þeirra á efnahagskerfi heimsins til þess að skýra með einhverjum hætti þá stöðu sem íslenskt efnahagslíf er í núna. Það er afleiðing raða mistaka núverandi stjórnvalda og á sér engar skýringar erlendis.

Herra forseti. Samfylkingin hefur stutt afstöðu hæstv. ráðherra í þeim viðbrögðum sem alþjóðasamfélagið hefur gripið til í kjölfar atburðanna 11. september. Við Íslendingar höfum stutt samþykktir Sameinuðu þjóðanna um þessi efni. Við höfum stutt bandalag aðildarþjóða Sameinuðu þjóðanna sem ætla að láta einskis ófreistað til þess að ráða niðurlögum hermdarverkamanna hvar sem er.

Hér er komið að ákveðnu grundvallaratriði, herra forseti. Leyfist alþjóðasamfélaginu að grípa til aðgerða til að tryggja mannréttindi í einstökum ríkjum? Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að svo sé. Ég er þeirrar skoðunar að það sé hlutverk alþjóðasamfélagsins að tryggja mannréttindi hvar sem er í heiminum og þess vegna segi ég það hikstalaust að ég fagna því þegar afganskar konur kasta blæjunni í Kabúl vegna þeirra aðgerða sem alþjóðasamfélagið greip til. Ég tel að það sé hlutverk alþjóðasamfélagsins að tryggja mannréttindi hvar sem er í heiminum.

Ég er þeirrar skoðunar að alþjóðasamfélagið sé í fullum rétti til að aðstoða og skakka leikinn þar sem fólk hefur verið svipt grundvallarmannréttindum sem eru viðurkennd í alþjóðlegum sáttmálum. Það er hins vegar rétt að muna, herra forseti, að sá árangur er dýru verði keyptur og mannslífið er jafndýrmætt í Afganistan og í Bandaríkjunum eða hvarvetna annars staðar. Þegar við hörmum missi þeirra sem eiga um sárt að binda vestan hafs, þá hörmum við líka mannfall og hörmungar óbreyttra borgara í þessu fjarlæga fjallalandi.

Afganistan er að sönnu fallið eða sú stjórn sem þar ríkti en það að uppræta hryðjuverkastarfsemi er flókið og langvinnt verkefni sem vinnst endanlega á öðrum vettvangi en vígvellinum einum. Það hafa auðvitað önnur öfl en einungis talibanar og samtök ofsatrúarmanna veitt hryðjuverkamönnum skjól og stuðning og þann flókna vef þarf að rekja upp. Ég er þeirrar skoðunar að forustan við þá vinnu og yfirstjórn aðgerða alþjóðasamfélagsins gegn hermdarverkasamtökum sé best komin í höndum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Við vitum hins vegar, herra forseti, að besta ráðið til að draga úr hryðjuverkum er að ráðast gegn misrétti og örbirgð í heiminum. Það er ekki síst hlutverk þjóðar eins og okkar. Þess vegna langar mig, herra forseti, að vekja eftirtekt á því að við í Samfylkingunni höfum í dag lagt fram till. til þál. um sjálfstæði Palestínu. Við höfum beitt okkur sérstaklega í því efni, herra forseti.

Það vill svo til að í dag er alþjóðlegur stuðningsdagur Sameinuðu þjóðanna við baráttu Palestínu --- ég er viss um að hæstv. utanrrh. mundi eftir því en láðist að geta þess --- og af því tilefni höfum við lagt fram þáltill. sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Ísraelsmenn dragi heri sína frá hernumdu svæðunum í Palestínu, í samræmi við friðarsamkomulagið sem gert var í Ósló árið 1993, og geri þannig Palestínumönnum kleift að lifa sem frjáls þjóð í eigin landi.``

Herra forseti. Tillögugreinin er nokkuð lengri og í greinargerðinni er skýrt hvers vegna við höfum þessa afstöðu. Í dag er það svo að Palestínumenn eru beittir markvissri kúgun af Ísraelsmönnum. Þeir ráða í dag einungis yfir 18% af Vesturbakkanum og Gaza. Ísraelsher hefur hlutað Palestínusvæðið niður í rúmlega 220 einingar með minni byggð og Palestínumenn hafa nánast ekkert sjálfræði á þeim svæðum. Ég kalla þetta markvissa kúgun, herra forseti, og það er skylda Íslendinga að beita sér fyrir því að þeirri þróun sé snúið við á alþjóðavettvangi og ég fagna þeim ágætu orðum sem hæstv. ráðherra lét einmitt falla um þetta efni.

Herra forseti. Þriðja málið sem ég vil gera að umræðuefni eru tengsl okkar Íslendinga við Evrópusambandið og afstaðan til umsóknar um aðild að sambandinu. Ég hef sagt, herra forseti, eftir skoðun mína á málinu að kostirnir séu fleiri en gallarnir og sú afstaða mín herðist fremur en hitt eftir því sem ég skoða málið frekar.

Þetta er að sönnu ákaflega umdeilt mál og eðlilegt er að innan allra flokka séu skiptar skoðanir. Við í Samfylkingunni höfum fyrir okkar parta lagt mikla vinnu í þetta mál. Við höfum fengið 13 sérfræðinga til að fjalla um alla þá þætti sem málið varðar helst, 10 þætti alls og við höfum gefið þá vinnu út í 202 blaðsíðna bók sem er stútfull af upplýsingum um þetta mál. Þar eru samningsmarkmið Íslendinga skilgreind með þeim hætti að ef kæmi til aðildarumsóknar, þá er þetta framlag okkar til umræðunnar.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið felur í reynd í sér aukaaðild að Evrópusambandinu. Mér finnst eftirtektarvert og athyglisvert og kemur reyndar ekki á óvart að hæstv. utanrrh. talar fallega um samninginn. Samningurinn á það skilið. En það var ekki alltaf svo. Ég minnist þess ekki að hæstv. ráðherra hafi á sínum tíma treyst sér til að styðja aðild að þeim samningi sem hann mærir svo mikið núna. Ég heyri hæstv. ráðherra í dag tala fjálglega um ágæti samningsins en ég minnist þess samt ekki að hann hafi á sínum tíma treyst sér til að greiða honum atkvæði. En, herra forseti, batnandi manni er best að lifa.

Í dag er það þannig að samningurinn um EES er stöðugt að veikjast. Hann er okkur ekki jafnhagfelldur inn í framtíðina og hann var áður. Ástæðurnar eru margar. Í fyrsta lagi leiðir stækkun Evrópusambandsins til þess að furðu skjótt munu ríki þess verða 30 í stað 15 og það eitt leiðir til miklu minni áhuga sambandsins á málefnum EES en áður. Engir vita það betur en við sem sitjum í EFTA/EES-nefndinni og höfum átt viðræður við utanríkismálanefndir fjölmargra þjóðþinga sem hafa ákaflega lítinn áhuga og enga þekkingu á samningnum.

Í öðru lagi er samningurinn staður að því leyti að hann nær ekki til nýrra sviða í samstarfi ESB sem annað tveggja krefast þá harðra og erfiðra samninga líkt og um Schengen eða hreinlega þess að Íslendingar fá ekki tækifæri til að taka þátt í mikilvægu samstarfi innan álfunnar.

Í þriðja lagi afsöluðum við okkur ákveðnu fullveldi með samningnum en þróun innviða Evrópusambandsins, svo sem aukin völd Evrópuþingsins leiðir hægt en bítandi til þess að það dregur úr áhrifum okkar. Með rökum má halda því fram að við séum með þeirri þróun hægt en bítandi að tapa fullveldi án þess að hafa í rauninni fallist á það.

Í fjórða lagi leiðir núverandi staða til þess að við munum ekki ná þeim mikilvægu ávinningum sem felast í aðild að Myntbandalaginu með því að vera einungis í EES.

Í fimmta lagi má nefna að afurðir í sjávarútvegi sem voru undanþegnar hinum mikilvægu tollfríðindum sem við náðum með samningnum verða á næstu árum æ mikilvægari í útflutningi Íslendinga. Hæstv. ráðherra nefndi t.d. framþróun laxeldis sem er nokkuð háð því að okkur takist að breyta tollafyrirkomulagi sem nú gildir um það. Ég nefni sérstaklega síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ég held að kolmunninn sé í bókun 9 en man það ekki alveg.

Í sjötta lagi nefni ég niðurfellingu mikilvægra tollfríðinda gagnvart sjávarútvegi í fríverslunarsamningum við tilvonandi aðildarríki í ESB sem ógildast við inngöngu þeirra í sambandið.

Í sjöunda lagi má síðan nefna samstarf um öryggi og varnir sem við eigum ekki kost á að taka þátt í nema innan Evrópusambandsins.

Við erum hins vegar gróið Evrópuríki með burðuga stjórnsýslu og höfum a.m.k. til skamms tíma verið með ákaflega farsælt og stöðugt efnahagslíf. Við höfum því rétt til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er eitt af því sem við hljótum að ræða í fullri alvöru og hljótum að fara að taka það mál til efnislegrar umræðu, ekki einungis að ræða stöðugt hvort eigi að setja það á dagskrá. Við stöndum frammi fyrir þremur kostum.

Í fyrsta lagi að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið og það er sú leið sem ég hef skilið að forustumenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vilji fara. Sá flokkur á hins vegar eftir að skýra rökin fyrir því að slíkur samningur dugi okkur og líka að slíkur samningur náist. Ég vísa t.d. til niðurstöðu Svisslendinga um tvíhliða samning við ESB. Þar voru gerðar miklar tilslakanir af þeirra hálfu. Landfræðileg tengsl þeirra við ESB eru auðvitað ákjósanleg. Þeir eru í miðju ESB-ríkjanna. Viðræðurnar tóku 8 ár. Þeir kostuðu miklu til að bæta innviði síns ríkis í undirbúningi samninganna en niðurstaðan varð talsvert verri kjör en ganga innan Evrópusambandsins. Í slíkum umræðum þurfa forustumenn Vinstri grænna að skýra þau rök sem þeir telja að hnígi að því að hægt sé fyrir Íslendinga að ná betri árangri með tvíhliða samningum en Svisslendingar gerðu.

Í öðru lagi er kostur að vera áfram innan EES og berjast þar til þrautar fyrir uppfærslu á samningnum eins og hæstv. ráðherra hefur talað um að hann vilji gera. Ég verð þá upplýsa það, herra forseti, að ég var nýlega á fundum EFTA/EES-nefndarinnar þar sem þau mál voru rædd til hlítar við talsmenn Evrópusambandsins. Þá kom það alveg skýrt fram að ekki kæmi til nokkurra greina að fara í einhvers konar endurskoðun á þeim samningum aðra en tæknilega uppfærslu til að við höldum fríðindum sem við höfum gagnvart ríkjum sem við höfum fríverslunarsamninga við og eru núna að ganga í Evrópusambandið. Þau tollfríðindi falla niður. En það kom fram í máli hæstv. ráðherra að ekki er gert ráð fyrir af hálfu Evrópusambandsins, eins og kom líka fram af hálfu talsmanna þeirra á þessum fundi, að það verði uppfært á öðru en grundvelli viðskiptareynslu.

Þriðji kosturinn er auðvitað sá að sækja um aðild að Evrópusambandinu á grundvelli vel skilgreindra samningsmarkmiða og leggja niðurstöðuna síðan undir dóm þjóðarinnar. Það er athyglisvert þegar maður lítur yfir sviðið að Alþýðusamband Íslands hefur mótað mjög framsækna stefnu varðandi málið. Mér er ókunnugt um afstöðu BSRB, ef hún er þá einhver, en öflugir forustumenn innan BSRB, m.a. formaður eins stærsta aðildarfélagsins, hafa lýst stuðningi við það. Samtök atvinnulífsins eru þess mjög fýsandi að það verði lagt í umsókn. Staða flokkanna á Alþingi er þannig að þrír flokkar hafa málið til umræðu. Einn er á móti, þ.e. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og einn, Sjálfstfl., bannar umræðuna. Sem komið er þá er einungis einn flokkur sem er kominn með mögulega aðild að Evrópusambandinu í feril ákvörðunar og það er Samfylkingin.

Ég hef, herra forseti, lýst skoðun minni eins og fram hefur komið. Ef ég hefði meiri tíma, herra forseti, hefði ég viljað fara ítarlegri orðum um afstöðu mína til einstakra atriða. Það eru kannski tvö atriði sem mestu skipta. Það eru fullveldisrökin og sjórinn. Sjór skiptir mestu máli vegna þess að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins hefur fyrst og fremst verið það sem lagt hefur verið gegn aðild og þá kem ég að þætti hæstv. utanrrh.

Hann hefur sjálfur sagt það oftar en einu sinni að það sem íslenska hagsmuni varðar sé einmitt sjávarútvegsstefna ESB. Sá sem svona talar sem hefur yfir að ráða heilu ráðuneyti góðra sérfræðinga hlýtur að hafa brotið það mál til mergjar. Hvaða áhrif hefur það á sjávarútveg Íslendinga að ganga í Evrópusambandið? Hæstv. ráðherra lagði á sl. vori fram skýrslu. Þar var m.a. fjallað um sjávarútveg. Það var ekki tæmandi úttekt. Hæstv. ráðherra sagði um sjó í ræðu sinni þegar hann reifaði skýrsluna, með leyfi forseta:

,,Enn hefur ekki verið farið yfir alla texta sem tengjast sameiginlegri sjávarútvegsstefnu og þeir greindir út frá íslenskum hagsmunum.``

Mér finnst þetta ekki metnaðarfullt, herra forseti, og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er þessi vinna í gangi? Í sjálfu sér, herra forseti, er það svo að ég er ekki viss um að það skipti lengur máli vegna þess að sú vinna hefur verið unnin og hana er að finna í þessari bók Samfylkingarinnar sem ég held á.

Auðvitað er það þannig, herra forseti, að hér er ekki um að ræða fullkomna úttekt og örugglega eru þau rök sem hér eru ekki að öllu leyti skotheld. En þetta er besti texti sem ég hef séð um áhrif aðildar að ESB á sjávarútveg Íslendinga. Í stuttu máli, herra forseti, er ég þeirrar skoðunar á grundvelli þeirra raka sem þar koma fram og ég ætla að leyfa mér að skýra betur í seinni ræðu minni að það sé hagfellt fyrir íslenskan sjávarútveg að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu.

Ég ætlast ekki til þess að í dag taki menn metnaðarfulla umræðu á grundvelli þeirra raka sem hér koma fram og ég ætlast ekki til þess að það eitt verði grundvöllur umræðunnar. En hér er í fyrsta skipti af hálfu stjórnmálflokks, í fyrsta skipti af hálfu hreyfingar lagður fram pakki þar sem málið er skýrt og reynt að finna galla og kosti og það lagt fyrir. Og forustumönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem hafa sérstaklega nefnt sjávarútvegsrökin gegn aðild og einnig hv. forustumönnum Frjálslynda flokksins, ber auðvitað skylda til þess í framhaldinu að svara þessu með rökum. Við höfum með þessu lagt fram okkar skerf til málefnalegrar umræðu um mögulega aðild að ESB til að Íslendingar geti að lokum tekið afstöðu sem byggist ekki á tilfinningum heldur upplýsingum.