Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 11:20:01 (2151)

2001-11-29 11:20:01# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[11:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég var þeirrar skoðunar að hægt hefði verið að ná betri árangri í sambandi við þennan samning. Ég hélt því fram. Ég hafði ekki aðstöðu til þess að meta það vegna þess að ég sat ekki í neinni samninganefnd sem var að ljúka þeim samningi.

Ég hef hins vegar alltaf talið nauðsynlegt að þessi samningur hafi verið gerður og þar af leiðandi liggur það náttúrlega alveg ljóst fyrir að ef ég hefði verið í ríkisstjórn og haft aðstöðu til þess að meta allt sem að honum kom, þá hefði ég fylgt honum fram því ég hef alltaf haldið því fram að nauðsynlegt hafi verið að gera þennan samning.

Ég hef haldið því fram í núverandi ríkisstjórn að nauðsynlegt hafi verið að koma í gegn íslenska ákvæðinu í Kyoto-samkomulaginu. Ég hef haldið því fram. Núverandi stjórnarandstaða hefur ekki haldið því fram að það bæri að koma því í gegn. Núverandi stjórnarandstaða hefur haldið því fram að ekki ætti að gera það. Núverandi stjórnarandstaða hefur ekki haldið því fram að það ætti að gera öðruvísi. Hún hefur hreinlega verið á móti því samningsferli sem við Íslendingar höfum farið í. Á þessu er náttúrlega mikill grundvallarmunur, hv. þm.

Við skulum hins vegar temja okkur það í öllum stórum málum að þar koma margir að. Það gerir enginn einn maður, hvorki utanrrh. landsins eða aðrir. Þetta eru stór mál og flókið ferli þar sem margir aðilar og oft margar ríkisstjórnir koma að. Þannig er það líka með Evrópumálin, hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Framsfl. lagði fram mjög mikið rit í þessu máli og mjög gott að Samfylkingin hefur líka gert það. En við skulum halda því rétt til haga og við skulum ekki metast um hvað lagt er fram og þess vegna fagna ég því að Samfylkingin hefur gert það. En ég minni hv. þm. á að það hefur Framsfl. líka gert og fyrir alllöngu, en hann virðist hafa gleymt því í öllum málflutningi sínum.