Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 11:24:33 (2153)

2001-11-29 11:24:33# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[11:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hóf mál sitt á því að ræða um rétt eða svigrúm alþjóðasamfélagsins eins og hann kallaði það til að grípa til aðgerða til að tryggja mannréttindi. Ég get verið sammála hv. þm. um að slíkur réttur er til staðar, enda sé þá um að ræða lögmætar ákvarðanir alþjóðastofnana og í samræmi við mannréttindasáttmála og önnur alþjóðalög.

Hins vegar er ég ósammála þeirri greiningu hv. þm. að alþjóðasamfélagið standi fyrir aðgerðum í Afganistan um þessar mundir. Það gerir það ekki. Hernaðurinn í Afganistan er hvorki á vegum Sameinuðu þjóðanna, NATO, né annarra viðurkenndra alþjóðasamtaka. Hann er á vegum Bandaríkjamanna, Breta að litlu leyti og síðan hópa innan Afganistan.

Því miður er það svo að þótt öllum réttsýnum mönnum sé það fagnaðarefni að harðstjórn talibana hverfi frá völdum, þá hafa umbæturnar í málefnum kvenna ekki orðið meiri en svo að hinir nýju valdaherrar í Kabúl bönnuðu þar fyrir nokkrum dögum mótmælagöngu nýstofnaðra kvennasamtaka.

Varðandi tillögu Samfylkingarinnar um málefni Palestínu sem hv. þm. gerði að umtalsefni þá fagna ég áhuga Samfylkingarinnar á því máli og ég tel til fyrirmyndar að Samfylkingin bauð þeim gesti hingað til landsins sem hún gerði á landsfundi sínum. Hitt eru mér vonbrigði að Samfylkingin skyldi ekki leita eftir þverpólitískri samstöðu um flutning tillögu um málefni Palestínu. Fyrir því er hefð á Alþingi. Það tókst mjög góð samstaða um stefnumótun í málefnum Palestínu á Alþingi veturinn 1988--1989 og ég verð einnig að segja að gildandi samþykkt Alþingis um það mál er að flestöllu leyti betri en sú tillaga sem Samfylkingin flytur nú. Hún er sterkari og vísar afdráttarlausar í rétt Palestínumanna til að stofna sjálfstætt ríki og réttindi flóttamanna til að snúa heim. Það er aðeins þetta eina atriði í tillögu Samfylkingarinnar sem er þá nýtt og það er um alþjóðlegar gæslusveitir. Ég verð því að segja að það urðu mér vonbrigði að sjá þessa tillögu hér á borðum orðaða eins og hún er orðuð og einnig að ekki skyldi reynt að viðhalda um málið þverpólitískri samstöðu.