Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 11:53:16 (2160)

2001-11-29 11:53:16# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[11:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hér er ekki um að ræða málefni af neinum praktískum toga. Hér er um pólitísk mál að ræða. Þetta varðar spurninguna um hvort Evrópusambandið telji rétt að hleypa okkur í meiri mæli að vettvangi þar sem fjallað er um málefni sem okkur varðar.

Nú liggur það alveg ljóst fyrir að við komumst ekki að þeim vettvangi á síðustu stigum, þ.e. í ráðherraráðinu sjálfu. Þar höfum við engan aðgang. Við höfum ekki aðgang að Evrópuþinginu. Þetta kom mjög berlega í ljós þegar upp kom vandi varðandi fiskimjölið, þar sem teknar voru mikilvægar ákvarðanir sem augljóslega varða hagsmuni okkar. Um það er ekki að ræða að við fáum aðgang að þessum stofnunum á grundvelli EES-samningsins. Það liggur alveg ljóst fyrir. Þangað gætum við aðeins komið sem aðilar að Evrópusambandinu. Þetta verðum við að gera okkur alveg ljóst.

Hins vegar varða ákveðnar nefndir og stofnanir innri markaði. Ég nefndi Matvælastofnunina, sem búið er að koma á fót. Hún varðar innri markaðinn. Ég nefndi flugmálin. Við erum aðilar að flugmálastefnu Evrópu og þess vegna er bagalegt að hafa engan aðgang þar sem verið er að fjalla um mál og undirbúa ákvarðanir sem varða hagsmuni okkar. Hér er því um hrein pólitísk mál að ræða sem ég hef talið rétt að láta á reyna. Undirtektirnar hafa ekki verið góðar en ég vil líka taka fram að um þessi atriði þurfum við að ná samstöðu meðal þeirra ríkja sem hér eiga hlut að máli, þ.e. milli Íslands, Noregs og Liechtenstein. Við munum aðeins geta farið hér fram í samfloti við aðra og þess vegna eiga þessar viðræður sér stað milli Íslands og Noregs um þessi mál þannig að við getum komist að sameiginlegri niðurstöðu.