Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 11:55:42 (2161)

2001-11-29 11:55:42# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[11:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti sá kafli í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem laut að Evrópu vera með allra bragðdaufasta móti. Hv. þm. álasaði þó hæstv. ráðherra fyrir að taka eitt tiltekið mál út, þ.e. gengismálin, og varaði hann réttilega við því að Evrópusambandið mundi ekki leysa núverandi vanda okkar. Það er hárrétt hjá hv. þm. að þar er um að ræða miklu lengri aðdraganda en svo að við getum séð nokkra von í að aðild að Evrópusambandinu kynni að bæta núverandi stöðu.

Hv. þm. sagði eigi að síður að nauðsynlegt væri að ræða málið allt saman, kosti og galla. Ég spyr: Hvers vegna gerði hv. þm. það ekki?

Ég varpaði nokkrum spurningum fram til hv. þm. í ræðu minni. Nú geri ég ekki kröfu til þess að hann svari þeim í stuttu andsvari en við höfum tímann hér í dag. Það er rétt hjá hv. þm. að við þurfum að ræða aðild að Evrópusambandinu efnislega. Hv. þm. er í fararbroddi hreyfingar sem m.a. hefur tínt það til, með nokkrum rökum, að það sé ekki hægt að ganga í Evrópusambandið vegna hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu. Þá verður auðvitað að koma með rök til þess að styðja þá afstöðu.

Ég er þeirrar skoðunar að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna standi ekki í vegi fyrir þessu. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hélt fram í ræðu minni, að það sé gott fyrir íslenskan sjávarútveg að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þá getur hv. þm. sagt á móti að ég hafi ekki fært rök fyrir því. Það er rétt hjá honum. Það ætla ég að gera seinna í dag.

Ég kom hér upp til að spyrja hv. þm. hvað hann átti við með afstöðu sinni gagnvart EES og tvíhliða samningi. Hv. þm. sagði að ég hefði líklega misskilið stefnu Vinstri grænna, hún væri í reynd ekki sú að koma á tvíhliða samningi. Eigi að síður sagði hv. þm. að stefna hreyfingarinnar væri að þróa EES-samninginn í átt að tvíhliða samningi. Ég hef kannski bara ekki greind til þess að skilja þetta allt saman en vill hv. þm. vera svo elskulegur að segja af eða á? Vilja Vinstri grænir þróa EES-samninginn í þá átt að hann verði tvíhliða samningur milli Íslands og sambandsins eða vilja Vinstri grænir það ekki?