Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 12:20:22 (2166)

2001-11-29 12:20:22# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvH
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[12:20]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig haft skammar signingar yfir skýrslu hæstv. utanrrh. af því sem afstaða Frjálslynda flokksins til ýmissa meginatriða í utanríkismálum er hin sama og ríkjandi stjórnarstefna þótt þar kunni og sé nokkur blæbrigðamunur á. Ég mun þess vegna víkja eftir hendinni að ræðu hæstv. ráðherra eftir því sem henni skilaði fram.

Hann vék sem vonlegt var í upphafi máls síns að hinum ógnarlegu atburðum, hryðjuverkunum í Bandaríkjunum. En það má segja kannski að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, og á ég þar við að lýðræðisþjóðirnar hafa náð höndum saman í baráttunni gegn þeirri ógn. En ekki er séð fyrir endann á þessum atburðum og raunar má segja að 11. september hafi brotist út þriðja heimsstyrjöldin. Menn sáu fyrir strax að þetta mundi hafa ógnarlegar afleiðingar en ekki eru öll kurl komin til grafar, því miður, og þess verður langt að bíða.

Sérstaka athygli vekur og veldur feginleik a.m.k. í brjósti þess sem hér stendur hversu breytt er afstaða Rússlands til vestrænna ríkja og gagnkvæmt. Það er kannski vegna þess að þeir sem muna kalda stríðið og þær áhyggjur sem menn báru í brjósti vegna þeirra atburða sem menn áttu e.t.v. von á, svo ég nefni Kúbudeiluna, til hvers það gæti leitt. Menn áttu á öllu von. En nú er þetta svo gerbreytt, að vísu breyttist það við fall Sovétríkjanna á sínum tíma í grundvallaratriðum, en núna er breytingin orðin alger að kalla má þar sem gera má kannski ráð fyrir að Rússland gerist a.m.k. óbeinn aðili að varnarsamtökum hinna vestrænnu þjóða.

Ég vil skjóta því hér inn í að á því hefur borið þegar í stað að hæstv. ríkisstjórn hefur viljað nota þessa geigvænlegu atburði í Bandaríkjunum sem skálkaskjól fyrir þeirri stöðu efnahagsmála sem við stöndum nú frammi fyrir. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson lét þess getið að ástand efnahagsmála okkar væri óskylt atburðunum og það er rétt að svo komnu. En hv. þm. Össur Skarphéðinsson minntist alls ekkert á að efnahagsmál okkar væru með öllu óviðkomandi þróun viðskiptamála heimsins. Það var ósköp dapurlegur útúrsnúningur sem hv. formaður utanrmn. viðhafði hér. En að öðru leyti er hv. þm. Össur Skarphéðinsson fullfær um að svara fyrir sig.

Hæstv. utanrrh. leggur á það áherslu ,,að engin réttlæting getur nokkurn tíma fundist á voðaverkunum ...`` eins og þar segir orðrétt, með leyfi forseta.

Það er rétt, en maður hlýtur að leiða hugann að stöðu mála fyrir Miðjarðarhafsbotni. Komið hefur skýrt fram af hálfu hryðjuverkamanna --- þó ekki sé það kannski mikið að marka --- að það ástand sem er að finna fyrir Miðjarðarhafsbotni milli Ísraela og Palestínumanna hafi haft úrslitaáhrif á hegðan þeirra.

Ég álít það undirstöðuatriði að þær deilur verði settar niður, þessari vargöld linni. Og þar eiga þeir sem nú beita sér gegn hryðjuverkamönnunum að vera og hljóta að vera fremst í fylkingu, að ég tali ekki um Bandaríkjamenn. En ekki er fyrir það synjað að Bandaríkjamenn geta talist hafa verið nokkur hlífiskjöldur Ísraela. Ég held að þetta sé undirstöðuatriði og það verði miskunnarlaust að beita öllum ráðum til að setja þær deilur niður með góðu eða illu og bera á aðila fé ótakmarkað ef ekki gengur betur með öðrum hætti.

Það er líka rétt sem hér kemur fram að alþjóðaviðskiptamál og utanríkismál okkar og rekstur þeirra er undirstaða framgangsmála og velferðar okkar.

Hér hefur langt mál verið haft um samning okkar við Evrópu enda þótt það væri ekki gert að aðalmáli í ræðu hæstv. utanrrh. Menn hafa minnt á EES-samninginn og borið hefur á því reyndar að menn væru með samviskubit út af afstöðu sinni í gamla daga til þess samnings. Það kom bæði fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hæstv. utanrrh. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að menn ættu ekki að vera að rifja upp liðna atburði þar sem afstaða manna mótaðist jafnan af því umhverfi og þeim tímum sem þá eru í hvert eitt sinni. En ég bið menn að athuga að um framtíðaráætlanir okkar höfum við fæst að byggja á nema reynslu sögunnar.

Hér minntist hæstv. utanrrh. á hina tæknilegu endurskoðun sem Evrópusambandið er tilbúið til að gera á þeim samningi en eins og ég skil orðin svo sem mér virtust fram koma í svörum hæstv. ráðherra þá yrði þar ekki feitan gölt að flá. Að vísu er mikilvægt að ná inn í ýmsar nefndir sem hafa með að gera úrslitamál sem okkur varða og ég er ekki að draga í efa að þetta er mikilvægt í sjálfu sér en við getum ekki bundið miklar vonir við þetta.

Ég verð tímans vegna að leiða hjá mér ýmislegt sem skiptir miklu máli en ég rekst hér á og hnaut sérstaklega um í ræðu hæstv. ráðherra það sem hann fer nokkrum orðum um afnám ríkisstyrkja og vitna í ræðu hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Ég hef áður bent á mikilvægi þess fyrir samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs að ríkisstyrkir verði almennt aflagðir. Þetta hefur verið megináhersla okkar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þar höfum við Íslendingar verið í fylkingarbrjósti ríkja sem lagt hafa til að unnið verði að samkomulagi á vettvangi stofnunarinnar um afnám ríkisstyrkja.``

Ég verð að segja að ég hef margsinnis hnotið um þessar yfirlýsingar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og þó aðallega hæstv. utanrrh. um að við værum í fylkingarbrjósti þeirra sem vildu berjast gegn því að ríkisstyrkir væru veittir, sér í lagi til sjávarútvegsmála. Þetta er náttúrlega skrum eitt og fráleitt að þetta komi heim og saman við staðreyndir máls. Hvað kallar hæstv. utanrrh. t.d. greiðslu ríkisins á skattafslætti til sjómanna? Það er auðvitað stór fjárhæð sem útgerðinni ber að greiða. Þetta er beinn ríkisstyrkur að sjálfsögðu. Ég ætla ekki að minnast á þann ógnarríkisstyrk sem í því er fólginn að afhenda útgerðarmönnum auðlind almennings gefins og án endurgjalds og minnir mig að hv. þm. Norðurl. e., Svanfríður Jónasdóttir, hafi reiknað það út að ríkisstyrk mætti telja allt að 6 milljörðum kr. sem ríkissjóður Íslands veitir sjávarútveginum. Þetta er því heldur einkennileg málafærsla og mætti segja mér að kynni að koma okkur í koll þegar aðrir átta sig á því hver staðan í raun og veru er.

[12:30]

Það er eins og ég sagði og fram kemur hér að rekstur utanríkismálanna er undirstöðuatriði líka og ekki síst vegna viðskiptahátta og undirstöðuatriði er það að ná sem traustustum viðskiptasamböndum við nýja stórmarkaði eins og nefndir eru hér í Kína og Japan. Annað mál er það að við þurfum ekki að haga okkur eins og einhverjir oflátungar í kostnaði sem stofnað er til, eins og við höfum dæmi um í Japan, vegna þess að frekar væri og árangursríkara hygg ég að styrkja samtök útflytjenda eins og sér í lagi sjávarútvegsafurða til þess að ná viðskiptasamböndum við þessi ríki, enda hafði þeim tekist vel sem svo reynslan sannar áður.

En það sem vakti athygli mína, þó að ég hafi ekki tíma til að víkja að því sem skyldi --- ég mun gera það í síðari ræðu --- var það sem ekki stóð í skýrslunni og það var útlegging á hugsanlegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Ég átti von á því sérstaklega af því að mér skildist að á nýafstöðnu þingi Framsfl. hefðu þessi mál verið mjög til umfjöllunar, enda hafði flokkurinn efnt í stóra nefnd til að ræða þessi mál og rannsaka, og eins á þingi Samfylkingarinnar var þetta í upphafi gert að aðalmáli en virtist svo skákað út af borðinu af aðalforustumanni Samfylkingarinnar í Reykjavík, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En það er ánægjulegt að þeir hafi unnið drengilega og skarplega að þessu og gjarnan vildi ég fá þessa útgefnu bók þeirra í hendur gegn vægu gjaldi. Þar er af ýmsu að taka. Ég vil leggja á það áherslu að við í Frjálslynda flokknum höfum lýst því yfir frá upphafi að við vildum ræða þessi mál og rannsaka til hins ýtrasta, hins vegar væru það stórir agnúar á mögulegri aðild okkar að fram hjá þeim yrði ekki gengið eða komist að óbreyttu.

Þar vil ég tímans vegna aðeins nefna að að svo komnu, eftir þeim upplýsingum sem bestar fást, virðist blasa við að útilokað sé fyrir okkur að ganga í bandalagið vegna stefnu þess í sjávarútvegsmálum. Það virðist með öllu útilokað annað en ganga þar við inngönguna undir jarðarmen sem við getum aldrei og með engum hætti sætt okkur við. Yfirstjórn nýtingar landhelgi okkar færðist blátt áfram til Brussel. Þetta er aðalásteytingarsteinninn að mínum dómi. Ég geri miklu minna úr evrunni. Ég er að vísu ekki tilbúinn til þess að fallast á að hún verði gerð að gjaldmiðli okkar enda slík ákvörðun bundin því að við gengjum í þetta umrædda samband. Nei, það er mikilvægt að stunda rannsóknir á þessu stórmáli. Vera kann að við neyðumst til þess að ganga í sambandið en það verður þó aldrei nema að breytt verði frá því sem nú gildir og virðist gilda um sjávarútvegsmálin.

Ég vil að endingu þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa skýrslu. Hún er vönduð og upplýsandi og ég spyr forseta vorn og forsetadæmið: Vildi hann ekki athuga það að þetta yrði fordæmi fyrir önnur ráðuneyti þannig að við tækjum upp á því, t.d. að afloknu jólaleyfi, að eyða einu formiðdegi í að ræða skýrslur um helstu mál sem eru á döfinni hjá ráðuneytunum, tækjum okkur kannski tíma frá kl. 9 að morgni til 12 með takmörkuðum ræðutíma. Þetta bið ég vinsamlegast um að verði athugað sérstaklega því að umræður um þessi mál eru mjög mikils virði til viðbótar þeim sem stundaðar eru við tillöguflutning og að öðru leyti á Alþingi.

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun taka ábendingar þingmannsins til athugunar.)