Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 12:36:35 (2167)

2001-11-29 12:36:35# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[12:36]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir efnismikla skýrslu þar sem fjallað er um ýmis mál sem varða alþjóðasamfélagið og sem reyndar varða okkur Íslendinga jafnframt því þegar fjallað er um utanríkismál er í senn verið að fjalla um innanríkismál. Þannig er nú samspil þessara hluta.

Þetta samspil hefur aukist mjög á undanförnum árum og áratugum samfara auknu frjálsræði í samskiptum ríkja heims og auknum alþjóðaviðskiptum. Útflutningsviðskipti bera uppi þær þjóðartekjur sem leggja grunninn að samfélagi okkar og velferð. Því er augljóst að samfélag okkar og efnahagskerfið er mjög opið fyrir utanaðkomandi áhrifum og margt af því sem gerist í alþjóðasamfélaginu hefur bein áhrif á aðstæður okkar.

Árásirnar á Bandaríkin þann 11. september sl. og afleiðingar þeirra hafa þegar haft mikil áhrif á samfélag okkar og hagkerfi og líkur eru til að þar séu ekki öll kurl komin til grafar. Við fyrstu sýn töldu ýmsir að þessir atburðir ættu sér stað svo langt frá okkur að áhrifin á samfélag okkar yrðu ekki mikil, a.m.k. ekki til lengdar litið. Staðreyndirnar segja okkur allt annað. Við höfum þegar orðið vitni að því að afleiðingar þessa hildarleiks fyrir efnahagskerfi heimsins og heimsviðskipti koma fram í samdrætti, minnkandi hagvexti og tekjutapi. Við Íslendingar verðum áþreifanlega varir við þetta í hagkerfi okkar, umsvif og tekjur minnka og margt þarf að hugsa upp á nýtt.

Ef litið er til nánustu framtíðar er von til þess að þessir hlutir færist í jafnvægi á ný og alþjóðasamfélagið aðlagist breyttum aðstæðum. Svo hörmulegir sem atburðirnir í Bandaríkjunum voru má sjá jákvæðar hliðar ef litið er til afleiðinga þeirra. Ógnir hryðjuverkanna virða ekki landamæri ríkja né eiga við einstaka heimshluta. Hryðjuverkaváin ógnar gervallri heimsbyggðinni. Þessi veruleiki hefur skapað þjóðum heimsins samstöðu um að taka höndum saman í baráttunni gegn hryðjuverkaöflum. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að stórveldin skuli taka saman höndum í sameiginlegri baráttu gegn glæpum en tilefni þess hefði mátt vera annað en raun ber vitni. Friðelskandi fólk ber þá von í brjósti að þessi samheldni megi halda áfram og þróast í þá veru að heimsfriður verði betur tryggður en áður.

Árásirnar á Bandaríkin hafa hreyft við ýmsu. Umræðan hér á landi um aðild Íslands að NATO hefur á vissan hátt hafist á ný og er nú litið til fleiri hliða málsins en áður. Samstarf íslenskra stjórnvalda og varnarliðsins í Keflavík hefur eflst og aukin áhersla hefur verið lögð á varnir landsins gegn hryðjuverkaöflum. Á vegum NATO hafa verið haldnar varnaræfingar hér á landi og hafa þær beinst að vörnum gegn hryðjuverkum sérstaklega.

Fullyrða má að vera varnarliðsins hér á landi hafi sjaldan eða aldrei haft jafnmikla þýðingu fyrir íslensku þjóðina og nú. Því hefur verið haldið fram að tilvist og viðbúnaður varnarliðsins og íslenskra yfirvalda hafi gert það að verkum að Ísland sé eitt öruggasta land heimsins gagnvart árásum hryðjuverkaafla. Í þessu sambandi mætti spyrja sig ákveðinna spurninga: Ef Ísland væri ekki aðili að NATO og hér væri ekki varnarlið, í hvaða sporum værum við þá? Við rekum ekki her og þjóðin er sammála um að þannig viljum við hafa það. Við rekum ekki öryggissveitir að öðru leyti en því sem á við lögreglulið okkar.

Miðað við þær aðstæður sem nú eru í heiminum, ógn hryðjuverkanna og þann ótta sem henni fylgir, hvernig mundum við haga málum okkar við þær aðstæður ef við værum ekki aðilar að NATO? Þetta er stór spurning sem þeir þurfa að svara sem harðast hafa gengið fram í andstöðu við aðild okkar að NATO og veru varnarliðsins hér á landi. Ég tel nauðsynlegt að fá slík svör frá þessum aðilum þannig að sá málflutningur sem lýsir andstöðu gegn aðild Íslands að NATO sé málefnalegur en ekki eins og í flestum öðrum málaflokkum að byggjast nær eingöngu á því að skapa sér sérstöðu með því að vera á móti.

Útflutningur og alþjóðaviðskipti eru grundvallarmálefni fyrir okkur Íslendinga. Það er því eitt stærsta og mikilvægasta viðfangsefni utanríkisþjónustunnar að standa vel og myndarlega að því að vinna með íslensku atvinnulífi við að afla markaða fyrir íslenskar útflutningsafurðir og stofna til alþjóðlegra viðskipta. Utanríkisþjónustan hefur staðið að þessum málum með miklum sóma. Hæstv. utanrrh. hefur lagt mikla áherslu á þessi mál og náðst hefur góður árangur. Ljóst er að slík verkefni kosta mikla fjármuni en líta verður á það sem ákveðna fjárfestingu sem skilar þjóðarbúinu fjármunum til baka þegar til lengri tíma er litið. Því má ekki gleyma að í þessu felast miklir hagsmunir þjóðarinnar vegna þess hve við erum háð alþjóðaviðskiptum. Að undanförnu höfum við verið að efla utanríkisþjónustuna, m.a. með opnun sendiráða í nokkrum löndum. Um þau mál hefur verið góð samstaða á Alþingi og tillögur um það hafa komið bæði frá stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum. Það er því æðiskondin staða þegar stjórnarandstaðan hleypur upp til handa og fóta og gagnrýnir opnun sendiráðs í Japan vegna þess hve mikla fjármuni það kostar þjóðina.

Vissulega felst í því mikill kostnaður fyrir ríkissjóð en það vissu menn á þeim tíma þegar fjallað var um tillögu um opnun sendiráðs í Japan. Tillagan var flutt af þáv. hv. þingmönnum sem nú eru meðlimir í stjórnarandstöðuflokkum á Alþingi og um málið var full samstaða. Í þessu máli ættu menn að reyna að vera samkvæmir sjálfum sér og láta af þeirri gagnrýni sem haldið hefur verið uppi og beint gegn hæstv. utanrrh. Íslenskt sendiráð í Japan skiptir okkur miklu máli og á án efa eftir að skila þjóðinni ávinningum í framtíðinni, ekki síst ef litið er til ferðamannaiðnaðarins og viðskipta með sjávarafurðir.

Herra forseti. Umhverfismál í víðum skilningi eru einn af þeim málaflokkum sem varðar alla heimsbyggðina. Umhverfismálin varða nútíðina en þó öllu fremur framtíðina og lífsskilyrði afkomenda okkar. Það sem stendur okkur Íslendingum næst á sviði umhverfismála er lífríki hafsins, hvernig viðgangur þess verður í framtíðinni og hvernig þjóðum heims mun takast að nýta auðlindir hafsins með sjálfbærum hætti. Afrakstur fiskstofna við Ísland skilar þjóðarbúinu mestum hluta þeirra tekna sem við byggjum samfélag okkar á. Það eru því gríðarlegir hagsmunir fyrir okkur að lífríki hafsins sé verndað.

Hér áður fyrr var stundum sagt að lengi tæki sjórinn við. Ekki eru mjög mörg ár síðan við Íslendingar hættum að kasta sorpi og öðrum úrgangi í sjóinn. Vitundin um að sjórinn er ekki ruslahaugur heldur matarkista og auðsuppspretta hefur vaxið mjög á undanförnum árum. Því miður vantar mikið upp á að umgengni við hafið sé í lagi á alþjóðlega vísu og ef ekki verður breyting þar á er hætt við að illa fari. Stjórnlaus nýting fiskstofna viðgengst víða og stunduð er rányrkja sem ógnar tilvist einstakra stofna. Alls kyns efni og úrgangi er fleygt í hafið og nægir þar að nefna iðnaðarúrgang og kjarnorkuúrgang.

Við höfum lengi barist gegn því að Bretar losi úrgang frá kjarnorkuendurvinnslustöðvum sínum í hafið. Það er augljóst að ef ekki verður breyting þar á munu áhrif þessarar mengunar fyrr eða síðar koma fram hér við land. Það er með ólíkindum hve bresk yfirvöld eru fáskipt út af þessum málum. Sú þjóð hefur að vísu stundum jaðrað við að teljast umhverfissóðar en það er með öllu óverjandi gagnvart framtíðinni að þeir haldi þessari iðju áfram og gegn því verðum við að beita okkur með öllum ráðum í samstarfi við aðrar þjóðir, svo sem Norðmenn. Það er augljóst að í víðu samhengi verður ekki komið í veg fyrir mengun hafsins nema með alþjóðasamvinnu þar sem mengunin virðir engin lögsögumörk ríkja. Þar getum við Íslendingar lagt mikið af mörkum.

Vernd hafsins er eitt þeirra mála sem eru efst á baugi í umræðu margra alþjóðasamtaka sem láta sig umhverfis- og auðlindamál varða. Langt er í land í þeirri umræðu og má reikna með að hún eigi eftir að verða mjög áberandi í náinni framtíð. Þjóðir heimsins hafa í auknum mæli vaknað til vitundar um mikilvægi þess að hafið verði verndað gegn mengun og að auðlindir þess verði nýttar á sjálfbæran hátt núlifandi og komandi kynlóðum til farsældar. Allt fer þetta mjög vel saman við hagsmuni okkar Íslendinga.

[12:45]

Ástand fiskstofna er alþjóðlegt áhyggjuefni og er ljóst að ástand margra þeirra fer versnandi. Ofveiddum stofnum hefur fjölgað og margir mikilvægustu nytjastofnarnir eru nú þegar fullnýttir. Þetta ástand hefur sín áhrif á lífríki hafsins og raskar jafnvægi náttúrunnar. Það er mikilvægt verkefni þjóðanna að vinna saman að sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins með framtíðarhagsmunina að leiðarljósi.

Eitt af því sem skiptir miklu varðandi nýtingu og afrakstur fiskstofna er að samstaða náist um það meðal ríkja heimsins að ríkisstyrkir til sjávarútvegs verði lagðir af. Ríkisstyrktur sjávarútvegur þekkist víða og það hefur m.a. áhrif á samkeppnisstöðu sjávarútvegs þeirra ríkja sem ekki njóta ríkisstyrkja, t.d. íslensks sjávarútvegs. Einnig er ljóst að ríkisstyrkir til sjávarútvegs eru til þess fallnir að hvetja til ofveiði og offramleiðslu, þar sem viðkomandi sjávarútvegur er þar með ekki rekinn út frá hagkvæmni- og arðsemissjónarmiðum.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á að ríkisstyrkir til sjávarútvegs verði aflagðir. Í því liggja miklir hagsmunir fyrir íslenskan sjávarútveg og þjóðarbú okkar. Það skiptir einnig og ekki síður máli varðandi sjálfbæra nýtingu fiskstofna.

Alþingi hefur ályktað að hefja beri hvalveiðar á ný við Ísland. Við höfum lagt áherslu á sjálfbæra nýtingu hvalastofna. Friðun hvala hefur valdið því að þeim hefur fjölgað mjög við landið og eru stofnarnir nánast að vaxa okkur yfir höfuð. Hvalirnir eru í beinni og öflugri samkeppni við okkur um fiskstofnana og við verðum að beita okkur af fullu afli á alþjóðlegum vettvangi til að hvalveiðar hefjist hér á ný sem fyrst.

Andstaða margra ríkja heims gegn hvalveiðum er andstæð almennum sjónarmiðum um sjálfbæra nýtingu. Þar að baki liggur óskiljanleg pólitík sem mótast m.a. af afstöðu almennings til hvala og byggist sú afstaða að miklu leyti á vanþekkingu og barnalegum sjónarmiðum. Einnig láta stjórnvöld í ýmsum ríkjum stjórnast af öfgafullum áróðurssamtökum sem misnota náttúruverndarhugsjónir. Íslensk stjórnvöld hafa verk að vinna við að koma ályktun Alþingis til framkvæmdar.

Einn hluti alþjóðlegu umræðunnar um umhverfismál snýst um loftslagsbreytingar. Nýlega fór fram hér á Alþingi umræða um skýrslu hæstv. umhvrh. um niðurstöður 7. aðildarþings Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh um loftslagsbreytingar. Á þeirri ráðstefnu náðist samkomulag um útfærslu Kyoto-bókunarinnar um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda. Hluti niðurstöðunnar var samþykkt aðildarríkjanna á hinu svonefnda íslenska ákvæði sem gerir litlum ríkjum mögulegt að ráðast í verkefni sem nýta endurnýjanlega orkugjafa, þótt því fylgi staðbundin aukning á losun koldíoxíðs.

Þetta mál er gott dæmi um sameiginleg alþjóðleg hagsmunamál sem skipta okkur Íslendinga miklu máli. Innanlandshagsmunir okkar lúta að atvinnuuppbyggingu og nýtingu innlendra og endurnýjanlegra orkugjafa til atvinnu- og verðmætasköpunar. Með öðrum þjóðum höfum við sameiginlegra hagsmuna að gæta til framtíðar varðandi lífsskilyrði á jörðinni. Í þessu máli sem öðrum höfum við látið mikið að okkur kveða og tekið þátt í því sameiginlega verkefni þjóða heims að gæta hagsmuna framtíðarinnar.

Niðurstaðan í Marrakesh getur falið í sér ýmis sóknarfæri fyrir Íslendinga, m.a. hvað varðar útflutning þekkingar á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, einkum jarðvarma. Samningurinn felur í sér hvata fyrir þróunarlönd til að nýta jarðvarma til orkuvinnslu og í því getur falist verulegur ávinningur fyrir okkur, bæði ef litið er til efnahagslegra þátta og einnig til öflunar losunarheimilda til notkunar við atvinnusköpun hér á landi.

Niðurstöðum loftslagssamningsins fylgja einnig neikvæðar hliðar. Það er mat manna að stórar iðnþjóðir munu samhliða því að draga úr notkun orkugjafa sem valda loftmengun, auka orkuframleiðslu með kjarnorku. Orkuframleiðsla með kjarnorku veldur ekki þeirri mengun sem fjallað er um í loftslagssamningnum og Kyoto-bókuninni og því er gert ráð fyrir því að þessi þróun geti m.a. átt sér stað í Japan.

Í samhengi við umræðuna um verndun lífríkis hafsins þá er þetta verulegt áhyggjuefni. Upp koma ýmsar áleitnar spurningar eins og: Hvað verður um úrgang frá kjarnorkuverunum? Munu Japanar flytja hann til annarra ríkja til endurvinnslu eða geymslu? Hvernig verður meðhöndlun þessara hættulegu efna þá hjá viðkomandi ríkjum? Fyrir okkur er eðlilegt að spyrja þess hvort t.d. Japanar mundu semja við Breta um endurvinnslu úrgangs í Sellafield eða Dounreay. Og hvernig verður sá úrgangur fluttur milli þessara landa? Lengi hefur sá möguleiki verið til skoðunar að skipaumferð fari norðurleiðina milli Asíu og Evrópu. Ef kjarnorkuúrgangur kemur til með að verða fluttur þá leið, er komið upp mjög alvarlegt áhyggjuefni fyrir þjóðirnar við Norður-Atlantshaf. Ég legg áherslu á þessar hugleiðingar og hvet íslensk stjórnvöld að vera vel á verði vegna þessara mála í nánustu framtíð.

Herra forseti. Samspil innanríkis- og utanríkismála hefur aukist mjög á liðnum árum og við blasir að sú þróun muni halda áfram í nánustu framtíð. Ég hef í ræðu minni beint sjónum sérstaklega að umhverfis- og auðlindamálum og dregið fram hve samofnir hagsmunir okkar sem þjóðar eru alþjóðlegum hagsmunum og hve miklu máli þeir skipta fyrir framtíðina. Það er augljóst að beint samhengi er milli umhverfisverndar og skynsamlegrar nýtingar náttúruauðlinda annars vegar og efnahagslegra hagsmuna hins vegar. Þessir hagsmunir fara einfaldlega saman og það vekur vonir um að þjóðir heims muni láta umhverfis- og auðlindamálin meira til sín taka í framtíðinni, ekki síst þar sem því fylgir efnahagslegur ávinningur þegar upp er staðið.