Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 12:52:52 (2169)

2001-11-29 12:52:52# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[12:52]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur finnst eitthvert nöldur í mér, í þessu tilfelli, varðandi umræðuna um sendiráð í Japan og einhver viðkvæmni út af því að stjórnarandstaðan sé ekki sammála. Það er algjörlega rangt mat hjá hv. þm. Ég er hvorki með nöldur né viðkvæmni út af því. Hins vegar hefur verið bent á að í umræðunni á sínum tíma, þegar tillagan um stofnun sendiráðs í Japan var rædd á þinginu, þá hafi verið bent á að þetta mundi kosta mikla fjármuni. Það komu fram upplýsingar um það. Menn vöruðu við því og það lá allt fyrir en það var full samstaða í þinginu um það mál.

Það sem ég var að benda á var að þrátt fyrir að þessar upplýsingar hafi komið fram við þá umfjöllun þá er haldið áfram að láta eins og svo hafi ekki verið. Menn gagnrýna hér hástöfum að ráðist sé í hinar og þessar fjárfestingar, í þessu tilfelli á sendiráði í Japan, með miklum tilkostnaði. Það er auðvitað rétt að af þessu er mikill kostnaður. Ég vil hins vegar ekki taka undir að það sé eitthvert nöldur eða nagg hjá mér að benda á þetta. Mér finnst frekar að andsvar hv. þm. hafi jaðrað við nöldur.