Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 13:51:41 (2175)

2001-11-29 13:51:41# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þjóðir hafa alltaf mismunandi mat á því hvernig staða þeirra verði best tryggð. Við höfum okkar mat á því og Norðmenn hafa sitt mat. Til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það mál verða þjóðirnar að ræða saman. Og það erum við að gera.

Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við þurfum að sækja sameiginlega fram á vettvangi EFTA í þessu máli gagnvart Evrópusambandinu. En á það þarf líka að reyna að hvað miklu leyti þjóðirnar geta komið sér saman að þessu leytinu til.

Að mínu mati liggur alveg ljóst fyrir að við þurfum að fá fram lagfæringar á bókun 9. Það er eiginlega óbúandi við það ástand. Ég geri mér líka grein fyrir því að hugsanlega koma fram kröfur frá Evrópusambandinu til þess að þeir séu tilbúnir að fallast á breytingar án þess að ég ætli að fara að greina frá þeim hugsanlegu kröfum hér. Þannig er það í öllum samskiptum. En ég tel að bókun 9 sé þess eðlis að hún standi í vegi fyrir þróun tiltekins hluta sjávarútvegsins.

Þar með er EES-samningurinn augljóslega ófullkominn að þessu leyti og hann hefur reyndar alltaf verið það. Samningurinn er afskaplega mikilvægur en við verðum líka að viðurkenna að hann hefur sína galla án þess að verið sé að halda því fram að samningamenn Íslands hafi staðið sig eitthvað illa á þeim tíma. Ég hef aldrei haldið því fram. Ég veit alveg hvað það er að standa í erfiðum samningum. Og menn geta ekki alltaf fengið þá niðurstöðu sem þeir vilja héðan úr ræðustól á Alþingi, það er veruleiki sem við stöndum alltaf frammi fyrir.