Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 13:54:00 (2176)

2001-11-29 13:54:00# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað fengum við ekki alveg allt fyrir ekkert með EES-samningnum þó að við höfum farið langleiðina. Við skulum heldur ekki gleyma í hvaða umhverfi sá samningur var gerður. Við skulum ekki gleyma andúðinni sem stóð á þáv. utanrrh. í erfiðri stöðu og erfiðum verkum. Það er ólíkt því sem er í dag þegar við komum hér hvert af öðru og í raun og veru bjóðumst til að bakka hæstv. utanrrh. upp í verkum hans til að gera þennan samning enn betri.

Ég man þá tíma að héðan úr þessum ræðustól hafi þáv. hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, verið kallaður landráðamaður, svo heitar tilfinningar voru við vinnuna við EES-samninginn.

Ég tek undir það með hæstv. utanrrh. að það eru gallar á bókuninni fyrir sjávarútveginn og þar verður að reyna að ná einhverju fram. Ég er líka alveg viss um að við munum standa frammi fyrir því að fá úrbætur og verða við kröfum. Ef til vill verða það greiðslur, e.t.v. annað.

Staðan gagnvart Norðmönnum og svo orðaskipti út af ræðu Baldurs Guðlaugssonar urðu til þess að mér láðist að hvetja hæstv. utanrrh. til að svara mér um markaðssóknina og boðið til atvinnulífsins. Ég vona að hann komi inn á það hér í síðari ræðu af hverju við erum svo sein að taka höndum saman við atvinnulífið um markaðssókn. Var það atvinnulífið sem ekki var tilbúið eða var ríkisstjórnin ekki á varðbergi?