Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 13:55:58 (2177)

2001-11-29 13:55:58# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september sl. skóku veröldina alla og hafa þegar haft gríðarlegar afleiðingar á sviði öryggismála, alþjóðastjórnmála og alþjóðaviðskipta. Atburðirnir minntu okkur óþyrmilega á að við getum ekki gengið út frá öryggi sem gefnu. Og er það e.t.v. stærsti lærdómurinn sem við getum dregið af þessum voðaverkum. Alþjóðasamfélagið hefur snúist til varnar af fullum þunga og vinnur nú að því að uppræta búðir hryðjuverkamanna í Afganistan. Enn fremur er lögð áhersla á að stuðla að friði á þeim átakasvæðum þar sem hryðjuverkastarfsemi á rætur sínar enda hlýtur friður þar að vera hluti af varanlegri lausn á hryðjuverkaógninni.

Friður, frelsi og hagsæld hefur ríkt í Vestur-Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. NATO hefur tryggt öryggi, og náin samvinna á efnahagssviðinu hefur stuðlað að þeirri velmegun sem við búum við. Nú stendur fyrir dyrum stækkun NATO og ESB til austurs. Í því sambandi hafa Norðurlöndin stutt Eystrasaltsríkin í orði og á borði. Við Íslendingar lékum sögulegt hlutverk fyrir tíu árum þegar Eystrasaltsríkin endurheimtu frelsi sitt og æ síðan hafa Norðurlönd verið í fararbroddi utanaðkomandi aðila við að aðstoða við uppbyggingu markaðshagkerfis og lýðræðislegra stjórnarhátta og tryggja þannig stöðugleika á Eystrasaltssvæðinu.

Vil ég í þessu sambandi spyrja hæstv. utanrrh.: Hvernig hefur stuðningi Íslands við aðildarumsóknir Eystrasaltsríkjanna að NATO og ESB verið háttað og hvernig metur hann stöðuna í þessum málum nú?

Á vettvangi Norðurlandaráðs hafa málefni Eystrasaltsríkjanna verið í brennidepli. Norrænt samstarf við Eystrasaltslöndin hefur verið umfangsmikið og einkum beinst að þróun lýðræðislegra stofnana, uppbyggingu markaðshagkerfis, virðingu fyrir mannréttindum og ábyrgri nýtingu auðlinda. Norðurlandaráð hefur lagt þunga áherslu á að Eystrasaltsríkin verði með í fyrstu lotu stækkunar NATO og ESB en ályktun þess efnis var m.a. samþykkt á sameiginlegum fundi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Riga í maí sl.

Þegar Eystrasaltsríkin verða orðin fullir aðilar að NATO og ESB mun samstarfið við grannsvæðin færast enn austar. En sú áherslubreyting var nýlega gerð að samstarf Norðurlanda við austanvert Eystrasaltssvæðið taki einnig til Norðvestur-Rússlands og Kaliningrad. Með þessu svæðisbundna samstarfi vilja Norðurlönd hér eftir sem hingað til leggja sitt af mörkum til að stuðla að friði, öryggi og stöðugleika í Evrópu.

Umfangsmiklar breytingar voru gerðar á skipulagi Norðurlandaráðs á 53. þingi ráðsins sem var haldið í Kaupmannahöfn í lok október. Nefndakerfi Norðurlandaráðs var breytt, horfið frá skipulagi með þremur stórum landfræðilega skilgreindum nefndum, Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd, og upp var tekið kerfi fimm málefnanefnda. Þessar nefndir eru menningar- og menntamálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, borgara- og neytendanefnd og velferðarnefnd, auk forsætisnefndar. Rætur þessara breytinga eru að aukinnar samstillingar var þörf við fagsvið norrænu ráðherranefndarinnar, málefnanefndir þjóðþinganna og nefndakerfi annarra alþjóðastofnana. Ætlunin er að vægi alþjóðastarfs Norðurlandaráðs aukist og hinar nýju málefnanefndir eigi samstarf við samsvarandi nefndir þjóðþinga og alþjóðastofnana.

[14:00]

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs mun hafa utanríkismál á sínu starfssviði en utanríkismál hafa hlotið æ stærri sess í starfi ráðsins frá því fyrsta utanríkismálaumræðan fór fram á Norðurlandaráðsþingi árið 1992. Ýmsar athyglisverðar hugmyndir hafa verið uppi á vettvangi Norðurlandaráðs um aukið samstarf Norðurlanda á sviði öryggismála. Má þar nefna hugmyndir um samstarf um friðargæslu, aukið samstarf sendiskrifstofa eftir vel heppnað samstarf norrænu sendiráðanna í Berlín og síðast en ekki síst tillögu aldamótanefndar um að Norðurlönd mæli einum rómi á alþjóðavettvangi. Er þar sérstaklega viðruð sú tillaga að Norðurlöndin tali einni röddu innan stærstu alþjóðasamtaka til að tryggja aukna vigt og áhrif þegar sameiginleg hagsmunamál Norðurlanda eru til umræðu.

Herra forseti. Nokkur umræða hefur verið um opnun sendiráðs Íslands í Japan. Í Japan er mikilvægur markaður fyrir íslenskar útflutningsafurðir og með sendiráðum í Japan og Kína höfum við öflugan útvörð fyrir íslenskt viðskiptalíf í Asíu. Þar eigum við gríðarlega viðskiptahagsmuni og mörg tækifæri til framtíðar. Viðskiptahættir og menning í Asíulöndunum eru svo gerólík því sem við eigum að venjast að það er mikill styrkur að því að einhver búi yfir sérþekkingu sem nýtist til að greiða fyrir viðskiptum. Þessa er sérstaklega þörf í Asíu og því ber að fagna sérstaklega opnun sendiráðs í Tókíó.