Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 14:26:06 (2185)

2001-11-29 14:26:06# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[14:26]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nýta mér andsvararéttinn til að koma með athugasemd við ræðu Þórunnar Sveinbjarnardóttur og þakka henni fyrir að koma með kvennavinkil inn í utanríkisumræðuna. Það er mjög brýnt.

Við vinnu Norðurlandaráðs í friðargæsluhópnum komu á fundinn fulltrúar sænskra samtaka sem heita ,,Från kvinna till kvinna``. Þau eru öflug og starfa á mörgum átaka- og hættusvæðum. Þær sögðu að við lestur Dayton-samkomulagsins væri ekki hægt að ímynda sér að Peking-ráðstefnan um jafnrétti hefði yfirleitt farið fram. Þessar upplýsingar eiga bara heima inni í þessari umræðu.

Þá má nefna að á alþjóðaráðstefnum um öryggi og varnarmál er þátttaka kvenna svona frá 1--10% að jafnaði og það segir sitt um hverjir halda um þessi málefni í hverju landi.

Í þriðja lagi, herra forseti, vil ég varpa því inn í umræðuna að í niðurstöðu starfshópsins sem ég hef vitnað í var lögð gífurleg áhersla á jafnréttissjónarmiðin og sérstaklega að auka hlut kvenna í uppbyggingarstarfi í kjölfar átaka þar sem Norðurlönd koma að og taka þátt í uppbyggingarstarfi. Það var sérstakt ánægjuefni að núna í haust veittu sænsk stjórnvöld 3 millj. sænskra króna til að gera átak í jafnréttismálum á þessu sviði.

Þessi örfáu atriði sem ég hef nefnt eru mjög mikilvæg, og sérstök ástæða til að koma þeim á framfæri hér þó að mér finnist ekki tilefni til að koma aftur í ræðu hér, herra forseti, til að geta þeirra. En sem betur fer er rétturinn til andsvara líka þannig að unnt sé að koma með ábendingar.