Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:22:01 (2193)

2001-11-29 15:22:01# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað því hv. þm. Árni Ragnar Árnason nefndi það í ræðu sinni, ef ég hef skilið hann rétt, að ofstækisöflin innan íslams væru sýnu verst af ofstækisöflum trúarbragða. Hv. þm. leiðréttir mig ef ég hef misskilið þetta. Ég held að mjög mikilvægt sé í þessari umræðu að halda því til haga að eins og við vitum öll hafa trúarbrögð, hverju nafni sem þau nefnast, alltaf verið misnotuð, því miður, af pólitískum ofstækismönnum. Saga kristninnar er blóði drifin eins og við þekkjum öll, saga íslams líka að stórum hluta og það á við um fleiri trúarbrögð, því miður. Ég vil gjalda varhug við því að hér sé reynt að útmála íslam sem rót hins illa. Málið er ekki svo einfalt, herra forseti.

Ég vil benda hv. þingmönnum á að rithöfundurinn góðkunni, Salman Rushdie, skrifaði um þetta efni í breska dagblaðið Guardian nýverið þar sem hann varaði við ofstækinu í trúnni og ofstækinu í íslam. Það þurfum við auðvitað að varast eins og annað trúarofstæki. Trúarofstæki kristinna manna er engu skárra að mínu viti. Salman Rushdie benti líka á að það sem allir þyrftu að leggja áherslu á, og það vona ég að við séum öll sammála um, er að gildi lýðræðis og mannréttinda eru sammannleg og ekki menningarbundin. Það er það sem skiptir mestu máli í þessari umræðu, herra forseti.