Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:26:25 (2196)

2001-11-29 15:26:25# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Ragnari Árnasyni fyrir prýðilega ræðu og einhverja hina efnisríkustu sem ég hef heyrt í þessum umræðum hér í dag.

Mér fannst hv. þm. gera prýðilega og af einlægni grein fyrir viðhorfum sínum til Evrópusambandsins. Ég er honum reyndar ekki sammála um hvaða leið er hægt að fara til að þróa samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það má vera að mér hafi misheyrst en þó kann það að stafa af misskilningi hv. þm. en hann taldi að samningurinn hefði frá upphafi verið þeirrar gerðar að honum væri ætlað að þróast. Það er rétt að því er hann nær til þeirra sviða sem hann var gerður um en ekki varðandi þau svið önnur sem hin evrópska samvinna hefur síðan þróast og náð út yfir. Það er sá stóri galli sem á þessum samningi er.

Ég deili auðvitað með hv. þm. vonum um að hægt verði að breyta samningnum eða uppfæra hann eins og hæstv. utanrrh. kallaði það þannig að okkur takist að ná frekari tollfríðindum, t.d. á sviði sjávarútvegs. Og það er alveg rétt að þróun í sjávarútvegi okkar hefur verið þess eðlis að skorturinn á tollfríðindum er miklu átakanlegri en núna. Við vitum hins vegar hvað Evrópusambandið hefur sagt. Þeir eru til í að ræða tæknilega uppfærslu sem byggir á viðskiptareynslu. Það hjálpar okkur ekkert. Við erum að gera út á væntingar hinna nýju ríkja sem munu ganga í Evrópusambandið.

Herra forseti. Ég kom þó aðallega hingað upp til að ræða um Palestínu. Hv. þm. sem er einn af talsmönnum Sjálfstfl. í utanríkismálum og situr í utanrmn. orðaði það svo að af persónulegum kynnum sínum af Ísrael teldi hann að ekkert ríki hefði komist eins langt í aðskilnaði á grundvelli þjóðarbrota og trúarbragða og Ísrael. Þetta þykja mér merkar yfirlýsingar. Mér sýnist að í ljósi þeirra hljóti hann að vera að tala fyrir munn a.m.k. sæmilegs hluta Sjálfstfl. og þá sýnist mér sem sú stefna sem Samfylkingin og fleiri fylgja varðandi málefni Palestínu hljóti að vera komin í ansi drjúgan meiri hluta á þinginu.