Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:28:46 (2197)

2001-11-29 15:28:46# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja að seinna atriðinu sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Ég greindi þarna frá sjónarmiði gagnvart Ísrael í ljósi þess að ég hefði komið þangað og átt raunar, eins og ég get sagt nú, viðræður við þarlenda embættismenn, var raunar svo óheppinn að hitta ekki þarlenda stjórnmálamenn. Ég get viðurkennt að ég get ekki um þetta sagt neitt af hálfu annarra þingmanna Sjálfstfl. eða flokksforustunnar vegna þess að ég var þar eini sjálfstæðismaðurinn á ferð. Þessi sjónarmið eru þannig mín eigin. Ég hef hins vegar áður gert grein fyrir þessum sjónarmiðum mínum og þau ættu þess vegna ekki að koma neinum á óvart sem setið hefur hér á þingi jafnlengi og hv. þm. hefur gert.

Varðandi samninginn um Evrópska efnahagssvæðið vil ég geta þess að það er að sjálfsögðu rétt að hann mun ekki geta þróast í átt til þeirra þátta sem síðan hafa komið inn í samstarf ríkjanna innan Evrópusambandsins. Og hvað þá heldur getur hann tekið til þátta sem voru áður í samstarfi þeirra en ekki var samið um við gerð hans. Auðvitað verður það aldrei nema með því að breyta samningnum efnislega. En það liggur fyrir í þingtíðindum oftar en einu sinni frá umræðum um samninginn meðan hann var hér til meðferðar að það var talinn einn af hans stærstu kostum að hann gæti þróast, hann gæti tekið breytingum, en það segir sig sjálft að til þess þurfum við að ræða við Evrópusambandið, raunar líka við hin EFTA-ríkin sem eiga aðild að honum.

Það skiptir þó hins vegar miklu máli að við gerum okkur grein fyrir því varðandi aðra hugsanlega kosti að Evrópusambandið er að breytast, að það mun breytast, það hefur meira að segja tekið miklum breytingum frá því að þessi samningur var gerður. M.a. þær breytingar kalla fram þörfina á að þróa samninginn um Evrópska efnahagssvæðið til að fylla upp í eyður sem breytingar innan Evrópusambandsins hafa skapað fyrir hagsmuni okkar.