Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:35:01 (2200)

2001-11-29 15:35:01# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni vék ég að því að ég vildi minnast á nokkur atriði í ræðu hæstv. utanrrh. sem ég hafði þá ekki tíma til að ræða. Þetta er einkum og sér í lagi í sambandi við endurskoðun EES-samningsins.

Í ræðu sinni vék hæstv. utanrrh. að því máli og nefndi þar sérstaklega að vísbendingar hefðu borist um að Evrópusambandið kynni nú að vera reiðubúið að ræða takmarkaða tæknilega endurskoðun samningsins. Hann nefndi síðan nokkur atriði sem væru mikilvæg, en það væri m.a. tryggari þátttaka í nefndum og aukin áhrif á störf stofnana ESB.

Það kann að verka nokkuð sveigjanlegt hvað flokka má undir tæknileg atriði. Aðgangur að nefndastarfi er vissulega mjög mikilvægt atriði í þessu sambandi. Frá því er gengið með nokkuð flóknum hætti í samskiptum EFTA-ríkjanna við ESB. Kannski má segja að sú skylda hvíli á Evrópusambandinu að hleypa Íslandi, Noregi og Liechtenstein að ákvarðanatökunni á fyrri stigum málsins og það er einmitt í gegnum nefndirnar sem slíkt gerist. Engu að síður eru ekki mjög formlegar reglur eða samningar um það hvernig þetta skuli gert. Þó skilst mér að það sé svolítið misjafnt eftir nefndum, að samningar séu um aðgang að ákveðnum nefndum en aðgangur að öðrum nefndum fari nánast eftir góðum vilja Evrópusambandsins.

Það hefur reynst ganga misjafnlega að fá aðgang að nefndum og í einhverjum tilfellum eru dæmi um það, sem ég held að séu þó fá, að EFTA-löndunum hafi verið meinaður aðgangur að nefndum á undirbúningsstigi. Ég hef a.m.k. vitn\-eskju um eitt slíkt atvik sem þá hafði ekkert með pólitík að gera. Það er því þess virði að spyrjast fyrir um hvort þarna er um að ræða að slíkur aðgangur að nefndunum sem er aðferð Evrópusambandsins til að koma til móts við skuldbindingar sem sambandið hefur gagnvart EFTA-ríkjunum, flokkist undir þessi tæknilegu atriði eða ekki.

Síðan er eitt atriði sem ég hjó eftir. Í ræðu hæstv. utanrrh. var sagt að endurskoðun bókunar 9, sem lýtur að tollfrjálsum viðskiptum með sjávarafurðir, sé verkefni sem nauðsynlegt er að skoða. Í andsvari væntanlega við hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði hæstv. utanrrh. að taka beri upp bókun 9. Ég hefði viljað spyrjast fyrir um það hvort hæstv. utanrrh. sé þeirrar skoðunar að taka beri upp bókun 9.

Bókun 9 veitir vissulega ekki fullan tollfrjálsan aðgang að mörkuðum fyrir fiskafurðir en er engu að síður mjög mikilvæg og þær skoðanir hafa oft verið settar fram að ef bókun 9 yrði tekin upp eins og það er orðað, þá mundu vakna kröfur Evrópusambandsríkja og kannski einkum og sér í lagi Spánverja, hugsanlega Portúgala, um veiðiheimildir í íslenskri efnahagslögsögu gegn auknum aðgangi að markaðnum. Þar af leiðandi skiptir nokkuð miklu máli með hvaða hætti er um þetta fjallað og ég segi það sem skoðun mína og þó að það sé sjálfsagt að skoða þetta atriði eins og hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni, þá tel ég að fara þurfi varlega í það og bókunin verði naumast eða trauðla tekin upp sem slík nema þá komi til með að vakna kröfur um aðgang að fiskimiðunum fyrir Evrópusambandsríkin.

Það er afar mikilvægt að við fáum betri aðgang að nýjum mörkuðum. Og þegar Evrópusambandið stækkar sem fyrirsjáanlegt er að það muni gera í náinni framtíð þá er mjög mikilvægt að við förum fram á að fá aðgang að þeim nýju mörkuðum. Ég held að það sé hægt að gera á grundvelli réttlætis- og jafnréttissjónarmiða og á grundvelli hugsjóna um viðskiptafrelsi sem liggur til grundvallar stofnsamningi um ESB og er undirstaða EES-samningsins. Við eigum samkvæmt þessum samningi, í raun og veru gengur hann út á það að við eigum aðgang að mörkuðum þeirra eins og þeir hafa frjálsan aðgang að okkar mörkuðum.

Einnig er hægt að rökstyðja þetta á grundvelli þeirra samninga sem hafa verið að ganga á ábyrgð Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég held að í raun og veru sé hægt að rökstyðja slíka kröfu á öðrum forsendum en þeim að þurfi að brjóta upp bókun 9 sem slíka.

Það er afar mikilsvert að þegar farið er af stað með viðræður um að breyta þessum samningi séu markmiðin með þeim viðræðum ljós. Mikilvægt er að fá upplýsingar um hvaða markmið menn setja sér. Ef það er í raun og veru svo að ESB er ekki reiðubúið til að taka upp aðra þætti en tæknilega þætti samningsins þá er að sjálfsögðu til lítils að fara af stað með slíkar samningaviðræður ef það er fyrirsjáanlegt að þær nái ekki nema til tæknilegra hluta. Að minnsta kosti þarf þá að skilgreina mjög nákvæmlega eins og ég bað um hér áðan hvað menn flokka undir tæknileg atriði samningsins.

Enginn gerir sér betur grein fyrir þessu máli en Samfylkingin, sem hefur lagt mikla vinnu í það að skilgreina samningsmarkmið sín gagnvart Evrópusambandinu en er ekki reiðubúin til þess að ganga inn í sambandið.

Þetta hefði ég viljað að yrði rætt hér. Einnig er afar mikilvægt að menn setji sér sameiginleg markmið og þá á ég við að aðilar samningsins, EFTA-megin, Ísland, Noregur og Liechtenstein, hafi líka sömu samningsmarkmið þegar þeir ganga til slíkra viðræðna.

Sú skoðun hefur komið fram víða að EES-samningurinn sé hagstæður samningur, hugsanlega jafnvel svo hagstæður að það væri erfitt að gera slíkan samning í dag. Menn þurfa þá að hafa sameiginleg markmið til að ganga til slíkra samninga án þess að ég fullyrði að menn geti upplýst um það hér þá væri líka fróðlegt að fá upplýsingar um það hvort full samstaða er um það milli EFTA-stoðarinnar, þ.e. Noregs, Liechtensteins og Íslands, um hvaða markmið menn setji sér með þessum viðræðum.

Að lokum vil ég aðeins nota þann tíma sem ég hef til að víkja að einu atriði sem snertir vissulega umræðuna um Evrópusambandið. Það er merkilegt að hér kom fram sú fullyrðing af hálfu formanns Samfylkingarinnar að Sjálfstfl. bannaði umræður um aðild að ESB. Svo er nú ekki. Sjálfstfl. hefur haft mikla umræðu um aðild að ESB en munurinn er sá á Sjálfstfl. og Samfylkingunni að Sjálfstfl. lýsir því yfir mjög skýrt og skorinort að hann vilji ekki sækja um aðild að ESB eins og málin standa. Flokkurinn hefur hins vegar ekki fullyrt neitt um að svo geti ekki farið að aðstæður breytist þannig að fýsilegt verði fyrir Sjálfstfl. að óska eftir aðild. Það byggist að sjálfsögðu á því að Evrópusambandið er breytilegur heimur, er að breytast og tekur breytingum eftir þeim pólitísku sjónarmiðum sem þar verða ofan á innan sambandsins. Og það er ekki hægt að fullyrða að ekki geti orðið breytingar í framtíðinni.

Eitt af því sem ég held að væri athyglisvert fyrir menn að hugleiða, ekki síst fyrir þá sem vilja ganga í Evrópusambandið án þess að þora að lýsa því yfir, að tekist er nokkuð á inni í Evrópusambandinu, en einnig nokkuð á milli heimshluta um hvort það eigi að gera skattamál að yfirþjóðlegri hugsjón. Það er mjög sterkur straumur í Evrópusambandinu sem gengur á þá leið að skattar verði samræmdir. Sömu aðilar og hafa verið mestu talsmenn evrunnar eru einnig talsmenn samræmingar í skattamálum og það er þegar hafin samræming í skattamálum innan Evrópusambandsins. Hún kemur þannig fram m.a. að í raun og veru hefur verið sett gólf á virðisaukaskatt. Menn komast ekki niður fyrir þetta gólf í virðisaukaskatti. Ég man nú ekki nákvæmlega hvar þetta gólf er, mig minnir að það sé um 15%.

[15:45]

Það er alveg klárt mál að það er mjög harður róður gegn skattafríðindum ríkja í Evrópusambandinu. Ljóst er að Írar hafa búið til ákveðin skattfríðindi fyrir fyrirtæki sem hefur orðið til þess að alþjóðleg fyrirtæki hafa sótt í að setjast að á Írlandi. Það er verið að þrengja þennan ramma og Írar vita að þeir verða sennilega að breyta um stefnu í þessum efnum og aðlaga sig auknum kröfum um samræmda skattastefnu. Þetta mun að sjálfsögðu hafa veruleg áhrif á samkeppnisstöðu Íra sem hafa skapað sér hagstæða samkeppnisstöðu með skattamálum.

Afstaða ESB-ríkjanna til þessa máls kemur mjög ljóst fram í baráttu þeirra innan OECD en þar hafa þau sett á oddinn að OECD beitti sér gegn skattfríðindum, gegn ríkjum sem löðuðu til sín fyrirtæki á grundvelli lágra skatta. Ef þessi barátta nær fram að ganga þá er í raun verið að taka mjög athyglisverða pólitíska stefnu innan Evrópu og innan Evrópusambandsins sérstaklega sem gengur gegn þeirri stefnu sem t.d. Bandaríkjamenn hafa verið að reka. Þeir hafa verið frekar hliðhollir lágum sköttum, alla vega hliðhollir þeirri grundvallarreglu að ríki geti og eigi að geta átt í samkeppni um það hversu háir skattarnir eru. Ef upplýsingagjöf er gagnvirk og miðast að því að geta tvískattað fyrirtæki þá er verið að búa til skattalegt umhverfi sem er þannig að fyrirtæki geta ekki flutt sig til eftir því hvar skattar eru hagstæðir. Það er að sjálfsögðu gert til þess að styrkja stöðu ríkisvalds og ríkisstjórna til þess að skattleggja fyrirtækin.

Ef sú staða kæmi upp að Evrópa yrði eitt skattsvæði þá er mjög athyglisvert hvaða afstöðu við Íslendingar mundum taka í því, hvorum megin við vildum vera í því máli. Sóknin inn í ESB, sem er svona eitthvert óopinbert mál margra á Íslandi, er að sjálfsögðu sókn inn í háskattaumhverfi. Það fer ekki milli mála að áhugi ASÍ á inngöngu í ESB er m.a. tengdur þessu. Þeir telja sig eiga auðveldara með að ná hugsjónum sínum fram í slíku umhverfi en í því umhverfi mikils sveigjanleika sem ríkt hefur á Íslandi.

Þennan sveigjanleika höfum við haft vegna þess að við höfum frelsi til þess að ráðstafa skattamálum okkar sjálf. Við höfum búið okkur til bæði sveigjanleika í efnahagsmálum sem nálgast að einhverju leyti þann sem Bandaríkjamenn hafa, án þess þó að hafa fórnað þeim félagslegu hugsjónum sem við viljum standa vörð um. Ef við horfum fram á að Ísland glati þessu frelsi þá er það náttúrlega hluti af þeirri skerðingu á sjálfsákvörðunarrétti sem við metum mikils. Ég taldi rétt að þetta sjónarmið kæmi hér fram í umræðunni vegna þess að það hefur ekki borið mikið á þessum fleti umræðunnar um ESB. En það er alveg ljóst eins og málin horfa nú innan Evrópusambandsins að það stefnir að samræmdri skattastefnu og stefna þess mun verða háskattastefna.