Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:49:50 (2201)

2001-11-29 15:49:50# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það var fróðlegt að hlusta á skattaræðu hv. þm. Tómasar Inga Olrichs. Hún kom hrá upp úr bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og hafði inni að halda nákvæmlega sömu vitleysurnar og þar er að finna um Íra.

Sá uppgangur sem hefur verið í Írlandi er að sögn írskra stjórnvalda ekki sökum skattastefnu Íra heldur vegna þess að Írland gekk í Evrópusambandið og vegna þess að Írland í krafti þess naut gríðarmikilla þróunar- og byggðastyrkja. Líka vegna þess að írsk stjórnvöld lögðu sérstaka áherslu á uppbyggingarstyrki fyrir tiltekið form iðnaðar, hugbúnaðar- og þekkingariðnað. Þetta ætti nú hv. þm. að kynna sér áður en hann ber fram þessar staðleysur varðandi þetta.

Það var þó ekki efni máls míns hið upphaflega, þó mér fyndist rétt að leiðrétta hv. þm. um þetta. Mér þótti merkilegt að heyra hvernig hv. þm. þjarmaði að hæstv. utanrrh. varðandi endurskoðun á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hver er stefna Sjálfstfl. eiginlega? Af máli hv. þm., formanns utanrmn., má ráða að hann telur engar líkur á því að hægt sé að endurskoða samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Eigi að síður hefur það komið fram í máli þingmanna Sjálfstfl. hér fyrr í dag að stefna flokksins sé sú að ganga ekki í Evrópusambandið vegna þess að nóg sé að hafa samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og ná einhverri uppfærslu á hann.

Herra forseti. Mér þótti forvitnilegast að heyra það sem hv. þm. hafði að segja um jafnræðisforsendur þess að breyta samningnum. Ég vil því spyrja hann: Var hv. þm. í reynd að segja að á grundvelli jafnræðis hlyti eða ætti að vera hægt að knýja ESB til þess að fallast á að við héldum sömu tollfríðindum og við höfum gagnvart þeim löndum sem eru að ganga inn eftir að innganga þeirra er orðin að veruleika?

Ef svarið er já við því þá hlýtur hann að segja að í krafti þessarar inngöngu eigi að gjörbreyta allri bókun 9 því að það hlýtur auðvitað að ganga yfir allt ESB-svæðið en ekki bara hin nýju aðildarríki.