Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:52:12 (2202)

2001-11-29 15:52:12# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi Íra og skattfríðindin og styrkjastefnuna þá kemur mér mjög á óvart ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson mótmælir því að skattastefna Íra hafi skapað þeim góða stöðu í samkeppni þjóða í millum. Þetta er vitað mál og hefur alla tíð verið viðurkennt. Auðvitað hafa styrkirnir komið til líka og það er annað mál. Hvort tveggja þessara atriða hefur bætt stórlega stöðu Íra í samkeppni við aðrar þjóðir.

Ljóst er að úr styrkjum þeirra mun draga og það er ljóst að verið er að herða tökin að þessum skattafríðindum. Allt liggur þetta fyrir og ef hv. þm. veit ekki af þessu þá er eflaust hægt að upplýsa hann um það. Hann hefði sjálfur mjög gott af því að lesa bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og getur eflaust margt lært af henni. En hann getur líka, ef hann vill, kynnt sér önnur rit um þetta. Mikið hefur verið skrifað einmitt um þessi skattfríðindi, ekki síst vegna þess að hinir vofveifilegu atburðir í Bandaríkjunum hafa leitt til þess að Bandaríkjamenn hafa nokkuð söðlað um í afstöðu sinni til þess hvort það eigi að t.d. afla upplýsinga um skattfríðindi og skatta þannig að möguleikar skapist á því að tvískatta fyrirtæki sem sækja í hagstætt umhverfi. Þetta liggur nú fyrir þar líka þannig að fjallað er um skattamál einnig á þeim grundvelli.

Að því er varðar svo hugmyndir mínar um það á hvaða grundvelli eigi að leita eftir hagstæðum samningum við nýju ríkin í ESB, þau sem ganga væntanlega inn í ESB, þá rakti ég það mjög skilmerkilega á hvaða hugmyndafræðilega grundvelli ég taldi að hægt væri að gera slíkar kröfur og ég taldi að það væri heppilegra heldur en að brjóta upp ákvæðið.