Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:54:27 (2203)

2001-11-29 15:54:27# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Er formaður utanrmn. Alþingis virkilega að halda því fram að hægt sé að gera sérsamninga við einstök ríki innan ESB á grundvelli þeirra fríverslunarsamninga sem nú eru í gildi? Ef það er skoðun formannsins þá er ákaflega forvitnilegt að fá að heyra rökin fyrir henni. Ég hef aldrei heyrt það.

Ef það væri hægt þá þyrfti hæstv. utanrrh. ekki að standa í því stappi sem hann stendur í gagnvart Evrópusambandinu. Þá mundum við geta fengið þau fríðindi sem við höfum og þyrftum ekki að fara að slást við ESB sem segir að það eina sem við getum fengið sé tæknileg uppfærsla á samningnum á grundvelli viðskiptareynslu.

Viðskiptareynsla dugar okkur ekki. Hvers vegna? Áherslur innan sjávarútvegs okkar hafa breyst. Það eru að koma fram nýir stofnar og aukinn afli í tegundum eins og síld og það sem meira er, neyslumynstur í þessum löndum mun breytast með aukinni velferð sem stafar af inngöngunni í Evrópusambandið. Það er sá vonarpeningur framtíðar sem við erum að gera út á, sem gæti skotið nýjum stoðum undir byggðarlög á Austfjörðum, á suðausturhorninu og jafnvel á Norðurlandi. Það er það sem skiptir máli.

Það er hrein firra að ætla að halda því fram að hægt sé að gera einhverja sérsamninga við einstök ríki sem eru komin inn í Evrópusambandið. Hv. formaður utanrmn. verður að skýra fyrir okkur hvernig þetta er hægt.

Varðandi Íra þá er tóm vitleysa að uppgangur Íra sé út af skattastefnu. Það er hárrétt hjá hv. þm. að skattar á Írlandi eru lágir. Hvernig eru þeir? Þeir hafa verið 10% skattar á hagnað sem stafar af iðnaði. Þeir hafa verið 20% af hagnaði fyrirtækja sem eru í þjónustu og ýmiss konar vöruframleiðslu. Þeir hafa verið 25% á fjármagn.

Hvernig er t.d. Ísland? Við erum með lægra tryggingagjald en flestar þjóðir. Við erum með lægri fjármagnstekjuskatt. Við erum ekki með háan tekjuskatt, þökk sé þeirri ríkisstjórn sem ég sat í. Munurinn á okkur og Írlandi er því ekki svo ýkja mikill.