Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:57:57 (2205)

2001-11-29 15:57:57# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Margar ástæður eru fyrir því að ræða við Evrópusambandið um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og ég ætla að nefna eina, númer eitt, sem skiptir kannski mestu máli og það er að Evrópusambandið faldi samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sem hefur reynst okkur erfitt að undanförnu. Ég ætla að nefna dæmi.

Við erum með landamærastöðvar og ESA felldi úrskurð í því máli sem Evrópusambandið neitaði að viðurkenna. Það var hins vegar leyst án þess þó að tveggja stoða kerfið væri virt.

Annað dæmi má nefna um dýrasjúkdóma og Noreg, þar sem Norðmenn kröfðust þess að þeir mættu banna innflutning á grundvelli tveggja stoða kerfisins og ESA féllst á það. Það var ekki viðurkennt. Einnig má nefna málefni að því er varðar prófgráður.

Síðan gerðist það í fyrradag að fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar sögðu á fundi í nefnd I þeir vildu ekki virða ákvörðunarrétt okkar á grundvelli tveggja stoða kerfisins og þeir vildu benda okkur á það að við hefðum fengið aðgang að mun fleiri nefndum en EES-samningurinn gerði ráð fyrir og létu í það skína að ef við ætluðum að halda kröfum okkar til streitu þá mundu þeir túlka samninginn eftir orðanna hljóðan, sem þýddi að við yrðum að fara út úr ýmsum nefndum. Þetta er nú ástæða númer eitt.

Önnur ástæða er breytingar sem orðið hafa. Síðan varðar þetta bókun 9. Og ég minni á að síðast þegar við ákváðum að greiða meira fjármagn til uppbyggingarsjóðanna þá sögðum við að við vildum fá endurskoðun í samræmi við bókun 9 en því var hafnað. Við hljótum að krefjast þess áfram að við fáum einhver réttindi á móti því sem við látum af hendi.