Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:00:26 (2206)

2001-11-29 16:00:26# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Ég er að sjálfsögðu sammála honum um að full ástæða sé til að halda ESB við efnið og krefja þá um að samningurinn verði haldinn. Það liggur í hlutarins eðli að ef menn eru sammála um það að ESB haldi ekki samninginn þá er það sjálfstætt deilumál milli aðila og í það ber að ganga af fullum krafti. Það er hins vegar ekki það sama og að endurskoða samninginn eða breyta honum eða taka inn ný atriði. (Gripið fram í.) Það er verið að tala um að menn standi við samningsskuldbindingar sínar. Eitt ákveðið atriði.

Að því er varðar aðgang að nefndum og þá fullyrðingu Evrópusambandsins að við höfum aðgang að fleiri nefndum en samningurinn hljóðar upp á þá hygg ég að það megi rökstyðja. Hins vegar hef ég skilið það svo að aðgangur að nefndum sem ekki er tryggður í samningnum sé aðferð Evrópusambandsins til þess að uppfylla ákveðnar samningsskyldur sínar, þó að ekki sé nefnt að aðgangur að nefndum sé fólginn í þeim. Með því er verið að hleypa samningsaðilum, þ.e. EFTA-ríkjunum að ákvarðanatökunni í gegnum þessar nefndir. Ég tel að Evrópusambandið hafi sjálft kosið að fara þá leið. Ef Evrópusambandið er að loka þessum leiðum þá stendur eftir sú skuldbinding sambandsins að hleypa með einhverjum hætti Íslandi, Liechtenstein og Noregi að þessari ákvarðanatöku. (RG: Vill þingmaðurinn taka upp umræður um það?)

Ég vil biðja hæstv. forseta að koma í veg fyrir það að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sé að blanda sér í skoðanaskipti okkar hæstv. utanrrh. úr sal og trufla þau með þeim hætti. Ég hygg að hún geti kvatt sér hljóðs hér í salnum eins og aðrir þingmenn og þurfi ekki að vera með þessa afskiptasemi.