Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:04:53 (2208)

2001-11-29 16:04:53# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessar athugasemdir.

Ég held að það sé alveg ljóst og liggi í hlutarins eðli að þegar samningsaðilar eru orðnir færri en þeir voru í upphafi, eins og nú á við um EFTA-hlutann af þessum EES-samningi, þá hafi þeir minna vægi í öllu ferlinu en þeir höfðu áður. Það liggur í hlutarins eðli. Stækki Evrópusambandið, þá verður hlutfallslegt vægi þeirra minna, það er ekkert óeðlilegt við það.

Engu að síður standa eftir samningsskuldbindingarnar, hlutfallslegt vægi og athygli sem samningurinn fær á í raun og veru ekki að breyta neinu um samningsskuldbindingar ESB. Það liggur náttúrlega í hlutarins eðli að það er hlutverk aðila samningsins, þ.e. Noregs, Íslands og Liechtensteins, að gera þá kröfu til ESB að við samningsskuldbindingarnar verði staðið hvort sem ESB-löndin eru fleiri eða færri.