Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:25:17 (2214)

2001-11-29 16:25:17# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Evrópusambandið byggir á því að markaðsvæða Evrópu innan eins ríkis. Þessi hugsun var sett fram á eftirminnilegan hátt fyrst af Winston Churchill í frægri ræðu í Zürich að lokinni heimsstyrjöldinni síðari.

Þessi markaðssáttmáli byggir á því að fjármagn, vinnuafl, vara og þjónusta skuli flæða frjálst um. En þessu frelsi eru takmörk sett. Og í vaxandi mæli lokar Evrópusambandið sig af gagnvart umheiminum, gagnvart vaxandi mörkuðum í Japan, Kína, Kóreu, í gervallri Asíu, Suður-Ameríku, Mexíkó, Kanada. Evrópusambandið lokar sig af.

Við höfum gagnrýnt þessa einangrunarhyggju sem felst í því að binda trúss sitt í of ríkum mæli við Evrópusambandið. Og við bendum einnig á hitt að það er ekki aðeins einangrunarhyggja sem fylgir aðild að Evrópusambandinu heldur setur þessi aðild okkur lýðræðislegar skorður, þrengir að lýðræðinu. Það sanna ótal dæmi sem ég nefni í síðara andsvari mínu.