Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:26:33 (2215)

2001-11-29 16:26:33# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður átt orðastað við hv. þm. um þetta og ég er ekki viss um að hann hafi rétt fyrir sér. Ég held að það sé ekkert svæði sem hafi eins gjöfula og frjálsa samninga við ýmis þróunarríki og einmitt Evrópusambandið og klárt er að innan þess, sér í lagi af hálfu jafnaðarmanna, er uppi sterk hreyfing til þess einmitt að opna Evrópusambandið fyrir vörum frá þriðja heiminum.

Við, ég og hv. þm., erum ekki alveg sömu skoðunar varðandi alþjóðavæðinguna, og hann hefur ýmislegt rétt fyrir sér þegar hann er að skjóta upp varúðarflaugum vegna hennar. Það er alveg rétt að ef alþjóðavæðingin nær bara til fjármagnsfrelsis og viðskipta er hún ekki innihaldsins virði. Við höfum sagt það, jafnaðarmenn, og m.a. samþykkt það sem hluta af stefnu okkar, Samfylkingarinnar, að við þurfum að berjast fyrir því í gegnum þær hreyfingar sem við eigum aðild að á alþjóðavettvangi að gæða alþjóðavæðinguna siðferðilegu inntaki. Og það veit ég að við erum sammála um.