Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:27:41 (2216)

2001-11-29 16:27:41# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðu undanfarna daga um utanríkisviðskipti hve ört markaðir okkar eru að vaxa víða um heim. Það hefur komið fram að til Japans flytjum við út vörur fyrir tæpa 10 milljarða kr. og við flytjum frá Japan annað eins. Það eru vaxandi markaðir í Asíu, Suður-Ameríku, Mexíkó, Kanada. Við eigum að hafa allan heiminn undir í stað þess að láta Brussel-valdið njörva okkur niður.

Varðandi lýðræðið og þær skorður sem reglugerðarverk Evrópusambandsins og Brussel-valdsins setur á okkur þekkjum við dæmin úr raforkugeiranum, úr fjarskiptageiranum og þannig mætti áfram telja. Spurningin snýst nefnilega ekki um frelsið eitt. Spurningin snýst um það að setja fjármagninu skorður. Og nú stendur krafan á Evrópusambandið að skjóta lýðræðislegum stoðum undir alla ákvarðanatöku. Við það er þjóðríkinu vikið til hliðar og úr verður nýtt miðstýrt vald sem ég mun skýra nánar þegar ég kem hér í ræðustól á eftir.