Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:30:13 (2218)

2001-11-29 16:30:13# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:30]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað ekki ný sannindi að fullveldishugtakið hefur verið að taka breytingum á síðustu áratugum. Það sem hv. þm. nefndi varðandi t.d. varnarsamning okkar við Bandaríkin var að hann var auðvitað gerður í því skyni að verja fullveldi okkar. Hins vegar er augljóst mál að það að gerast aðili að Evrópusambandinu væri í eðli sínu ákvörðun af allt öðrum toga. Og við mundum auðvitað leggja þar með af stað inn í ferðalag sem við sæjum ekki fyrir endann á. Þegar við vorum að ræða þessi mál á sínum tíma varðandi EES-samninginn voru menn almennt þeirrar skoðunar þó að menn greindi á um það hvort EES-samningurinn væri það mikið fullveldisafsal að það bryti í bága við stjórnarskrána. Ég taldi að menn væru almennt þeirrar skoðunar, á þeim tíma a.m.k., að fullveldisafsalið sem aðild að Evrópusambandinu fæli í sér væri svo mikið að það þyrfti a.m.k. að bera undir þjóðaratkvæði.

Nú finnst mér hv. þm. einhvern veginn vera að segja sem svo að þetta fullveldisafsal væri minna en aðildin að EES felur í sér. Er ég að misskilja hv. þm.?