Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:34:58 (2222)

2001-11-29 16:34:58# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:34]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur formaður Samfylkingarinnar talað og lýst þeirri skoðun sinni að flokkur hans ætti að taka upp það stefnumál að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Hann útskýrði þær röksemdir sem hann hefur lagt fyrir landsfund Samfylkingarinnar fyrir þessu máli, m.a. þau orð fulltrúa Evrópusambandsins sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn þess, að fiskveiðiheimildir ákveðist á grundvelli réttinda sem menn hafi áunnið sér í fortíðinni, sögulegri veiðireynslu.

Nú vill svo til að þetta er gjörsamlega öndvert við hugmyndir Samfylkingarinnar um úthlutun veiðiheimilda á Íslandi. Nær allir og ég held jafnvel alveg allir hv. þm. hennar, og hlýtur þá að vera um að ræða skoðun fylkingarinnar, flokksins, hafa lagt hér til ítrekað tillögur, frv. til laga, um að Ísland og í íslenskri lögsögu skuli úthluta veiðiheimildum með uppboði eingöngu án þess að taka tillit til réttinda úr fortíðinni. Því hlýt ég nú að spyrja, vegna þess að hitt er í röksemdafærslu fylkingarinnar fyrir því að Íslandi gangi í Evrópusambandið: Hvort vill fylkingin?