Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:57:16 (2230)

2001-11-29 16:57:16# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að enginn sé að loka fyrir eitt né neitt. Það er, held ég, útilokað að ímynda sér sérstaka samninga vegna þess að grundvallarsamningar, þ.e. Rómarsáttmálinn á bak við Evrópusambandið gerir ekki ráð fyrir því að hægt sé að gefa varanlega undanþágu til einhvers ákveðins ríkis vegna mála t.d. eins og fiskveiða.

Um hvað er þá að semja? Við erum þá þegar búin að ákveða það, ef við ætlum ekki að sætta okkur við stefnu þeirra í sjávarútvegsmálum, að samningsgrundvöllurinn er enginn og þess vegna er ekkert að leggja fyrir þjóðina.

Þess vegna held ég að við séum að hleypa af stað umræðu sem getur aldrei leitt til neins og vekur upp spurningar og vonir sumra eða annað sem í raun er þá bara dans í kringum einhvern graut sem allir vita að muni aldrei ná að sjóða.

Ég sé að hv. þm. vitnar mjög í bók sem hann er með í höndunum og mér er sagt að sé eitthvert rit sem Samfylkingin hefur gefið út um Evrópusambandið. Hv. þm. spurði hvort menn hefðu ekki lesið hana. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið hana vegna þess að ég hef ekki séð hana. Ég vona þá að þingmönnum verði afhent þessi bók þegar hún verður tilbúin. En mér skilst að Samfylkingin hafi þegar tekið saman einhver atriði, einhverjar rannsóknir á því hvernig staða Íslands mundi líta út ef við mundum ganga í Evrópusambandið og hvað þyrfti að gera áður en af því yrði.