Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:04:02 (2233)

2001-11-29 17:04:02# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er stefna Íslands að taka áfram fullan þátt í þessu samstarfi, samstarfi með Evrópusambandinu og ríkjum utan þess, sérstaklega ríkjum sem eru í Atlantshafsbandalaginu. Ég tel mikilvægt að gengið verði frá þessum málum sem fyrst því ég geri mér grein fyrir að þau þrjú ríki af þessum sex sem talað er um í þessu samhengi eru umsóknarríki inn í Evrópusambandið og verða væntanlega aðilar að því. Þá standa eftir þrjú ríki, þ.e. Tyrkland, Noregur og Ísland. Þá er ég hræddur um að eitthvað svipað geti gerst og hefur þegar gerst með Evrópska efnahagssvæðið, að minni áhersla verði á það lögð af hálfu Evrópusambandsins með nýjum mönnum sem ekki voru með í að byggja upp viðkomandi samkomulag, að ástunda þá samvinnu með þeim hætti sem upphaflega var stofnað til. Þetta höfum við upplifað á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta upplifum við í samskiptum þeirra ráðherra sem koma frá EFTA-ríkjunum og hinna frá Evrópusambandinu þannig að þetta gerist.

Hins vegar er ekkert alslæmt að Evrópusambandið geri sig meira gildandi á vettvangi utanríkismála. Það er merkilegt að mínu mati að Evrópusambandið skuli hafa náð algjörri samstöðu í stefnunni að því er varðar Palestínu og Ísrael. Það eru nýmæli í utanríkispólitík og skiptir miklu máli.

Það er líka mikilvægt að Evrópusambandið beiti sér í uppbyggingunni í Afganistan. Það er dæmi um mjög mikilvægt mál þar sem samstaða Evrópusambandsins skiptir miklu máli og veitir heilmikið vægi inn í þegar við erum að hugsa um hið sterka ríki, Bandaríkin. Það er mikilvægt í utanríkispólitík að það sé mótvægi við þau.