Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:29:09 (2238)

2001-11-29 17:29:09# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru kannski skoðanaskipti sem skipta ekki öllu máli í þessu samhengi. Auðvitað hafa menn mismunandi mat á því. Það er samt athyglisvert að stærstu ríkin hafa oftast orðið undir í atkvæðagreiðslum innan Evrópusambandsins. Það ríki sem þar er efst á blaði er Þýskaland. Mig minnir að talað sé um --- ég ætla ekki að fara með þá tölu --- en það ríki sem hefur sjaldnast orðið undir í atkvæðagreiðslum sem það hefur tekið þátt í er ríkið Lúxemborg. Nú má vel vera að ríkið Lúxemborg sé miklu sveigjanlegra ríki og setji sig ekki á mjög háan hest í ýmsum málum með sama hætti og Þýskaland.

Þarna er jú vissulega verið að breyta valdajafnvægi en það er alveg ljóst að smærri ríkin, eftir stækkunina, hafa þarna tögl og hagldir, og þess vegna er ég þeirrar skoðunar að þetta sé ekki að gerast. Mér finnst það koma mjög skýrt fram í málflutningi Breta sem hafa mikið að segja innan Evrópusambandsins en hitt er svo annað mál að málflutningur Þjóðverja og Frakka hefur gengið í aðra átt. Það er málflutningur sem mér sýnist ekki að sé að verða ofan á, og ég hef heldur styrkst í þeirri trú. Mér finnst t.d. alveg ljóst að Norðurlöndin saman, ásamt ýmsum smærri ríkjum --- við skulum taka sem dæmi Eystrasaltsríkin --- geti haft þarna veruleg áhrif ef þau standa saman. Og það er þetta sem ég held að muni gerast í framtíðinni í Evrópusambandinu, að blokkir muni myndast.