Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:56:06 (2247)

2001-11-29 17:56:06# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur alltaf verið mikill talsmaður sameiningar. Fyrir um tíu árum mátti lesa viðtöl við hann um nauðsyn þess að sameina íslenska jafnaðarmenn. Enn á okkar dögum má lesa viðtöl við hann um að sameina hina einstöku meiði íslenskrar verkalýðshreyfingar. Hv. þm. hefur með góðum rökum talað fyrir nauðsyn þess að menn a.m.k. íhugi mjög sterklega að sameina Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusamband Íslands.

Ég ætla um þessi dæmi, herra forseti, að vísa hv. þm. til samþykktar Alþýðusambands Íslands og hnausþykkrar greinargerðar sem henni fylgdi frá síðasta þingi ASÍ. Þar var einmitt rætt um nauðsyn þess að taka Evrópumálið á dagskrá og eins og það mál var sett upp var ákaflega erfitt að komast hjá því að álykta að þar væri mikill vilji fyrir því að kanna í alvöru aðild að Evrópusambandinu. Hver voru rökin? Rökin voru fyrst og fremst þau að hin félagslegu réttindi sem tryggð væru með aðild að Evrópusambandinu væru svo mikil. Og þar voru rakin upp fjölmörg dæmi.