Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:01:23 (2251)

2001-11-29 18:01:23# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég varð var við að hv. þm. svaraði ekki spurningunum. Ég spurði: Ef það er svona andstætt hugmyndum hans að Bandaríkjamenn taki að sér lögregluhlutverk eins og hann telur að þeir séu að gera og það ætti þá annar væntanlega að gera, telur hann að Sameinuðu þjóðirnar mundu geta tekið að sér það hlutverk?

Ég sagði áðan að ég hefði ekki þá reynslu af Sameinuðu þjóðunum og aðgerðum þeirra að þær hefðu skilað þeim árangri sem ætlast var til. Það var sá árangur sem ég var að tala um áðan. Ég held að hv. þm. hafi misskilið þetta. Reyndar tel ég að nokkuð góður árangur hafi náðst í að uppræta hryðjuverkasamtök sem hafa tekið sér bólfestu í Afganistan sem betur fer og ég vona að það takist að endingu alveg. En eins og ég sagði í ræðu minni þá get ég ekki séð að neinn endir sé á þeirri baráttu að uppræta hryðjuverkamenn í heiminum. Það er eitt af þeim verkefnum sem verða langvinn.